Það er réttur ungs fólks að njóta félagafrelsis. Skortur á skuldbindingu og pólitískum vilja til þess að styðja við, vinna með og nýta borgarasamfélag ungmenna: félags- og hagsmunastarf ungmennafélaga og þau verðmæti sem þau skapa er sóun á mannauði og hamlar samfélagsþátttöku ungs fólks. LUF undirstrikar brýna þörf ungmennafélaga á stöðugum og viðunandi tekjum, skort á lagaheimildum og pólitískri viðurkenningu. Með aukinni samvinnu ungmennageirans sem og stuðningi ríkisins við ungmennafélög verður hlutverk þeirra áhrifameira og þar með skapa þau meiri samfélagslegan ávinning. Þátttaka í félagsstarfi ungmennafélaga eflir leiðtogahæfni og borgarvitund ungs fólks, vinnur gegn félagslegri einangrun og er vettvangur fyrir ungt fólk til þess að þroska samskiptahæfni og skoðanaskipti. LUF telur því nauðsynlegt að ríkið styðji við hagsmuna- og félagsstörf ungs fólks lagalega, fjárhagslega og félagslega.
4.1. Jafnræði fjárúthlutana
LUF telur að ójöfn fjárframlög ríkisins til frjálsra félagasamtaka ungs fólks sé óviðunandi og er því eitt helsta áherslumál félagins að berjast fyrir fjárútlátum á jafningjagrundvelli. Hingað til hefur fjárúthlutunum til málaflokksins verið stjórnað af geðþóttaákvörðun og áhugasviðum mennta- og menningarmálaráðherra sem verður til þess að ungt fólk hefur ekki getað þróað með sér getu og þekkingu til þess að byggja upp sterka málsvara. LUF vill taka upp hlutlaust kerfi að norrænni fyrirmynd þar sem öll ungmennafélög, að uppfylltum ákveðnum kröfum, fái fjármagn í hlutfalli við félagafjölda og eiga kost á að byggja upp starf sitt á framsýnni hugsun. Þar er einnig tekið tillit til jafnréttissjónarmiða og hlutfalls ungs fólks í stjórn. Þetta fyrirkomulag styrkir einnig stofnun og starfsemi nýrra félaga. Að auki styður LUF samkeppnissjóði til verkefna, en vart ert samkeppni um slíka sjóði (t.d. Æskulýðssjóð) ef jafnræði í fjárúthlutunum ríkisins er ekki tryggt. Það veldur því að félögin með sterkustu innviðina (vegna ríkisfjárveitinga) hirða mest fé, á meðan þau félög sem byggja einvörðungu á sjálfboðastarfi ungs fólks standa á brauðfótum.
4.2. Ungmennastjórnir
LUF styður við stjórnir ungmennafélaga eða ungmennafélög þar sem ungt fólk fer með ákvarðanavaldið og lýðræðisleg ungmennaráð innan skipulagsheilda sem hafa völd. Án ungmennastjórna verður ungmennasamþætting aldrei að veruleika. Ríkisskattstjóri neitar þó almennum félögum um breytingar á skráningarskyldum sínum á þeim forsendum að ólögráða einstaklingar eigi sæti í stjórn ungmennafélags, þvert á mannréttindaákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um ákvæði um félagafrelsi og jafnræði. Einnig gegn réttindum barna til tjáningar og þátttöku í samfélaginu sem eru sérstaklega tryggð í 12. til 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Eiga börn því sjálfstæðan rétt til þess að stofna og taka þátt í félögum. LUF tekur skýra afstöðu gegn slíkum mannréttindabrotum og mismununar á grundvelli aldurs, sem andstæð er jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. LUF skorar á frjáls félagasamtök að hleypa ungu fólki að í auknum mæli í stjórnir og aðrar áhrifastöður. Ungt fólk styrkir þriðja geirann með endurnýjun innan samtaka, nútíma- og tæknivæðingu og nýsköpun.
4.3. Samstarf hagsmunaaðila
Með meginhlutverki sínu sem samstarfs- og samráðsvettvangur frjálsra ungmennafélaga stuðlar LUF að auknu samstarfi allra hagsmunaaðila, innan ungmennageirans sem utan – innanlands og erlendis. Skilvirkni og ávinningur hámarkast með samstarfi hagsmunaaðila í átt að sameiginlegum markmiðum og þekking og reynsla eykst. LUF stefnir að fjölgun aðildarfélaga, sameinaðri ungmennageira, eflingu samstarfs við stofnanir og aukinni alþjóðasamvinnu. LUF er aðgengileg og opin regnhlífasamtök og er brú á milli félagasamtaka, geira, kynslóða og landa. LUF leggur áherslu á samstarf við lýðræðislegar skipulagsheildir sem tryggja aðkomu ungs fólks að ákvarðanatöku og samræmast markmiðum og stefnu LUF.