“Q – félag hinsegin stúdenta stuðlar að aukinni fræðslu, kennslu, umræðu og rannsóknum um málefni hinsegin fólks  innan sem flestra háskólagreina.”

Á stjórnarfundi LUF þann 27. september sl. var samþykkt umsókn Q – félags hinsegin stúdenta um áheyrnaraðild að LUF. Hefur félagið því bæst við í hóp fjölbreyttra aðildarfélaga.

Markmið félagsins eru að þjóna hagsmunum hinsegin stúdenta á Íslandi. Þau gefa hinsegin (LGBTQIA+) stúdentum tækifæri til að hittast, veita þeim stuðning og auka samheldni þeirra. Jafnframt eru samtökin sýnilegt afl innan háskóla og í forsvari þegar málefni hinsegin einstaklinga ber á góma, þau beita sér í réttindabaráttu hinsegin fólks innan og utan háskóla og stuðla að auki að að aukinni fræðslu, kennslu, umræðu og rannsóknum um málefnið innan sem flestra deilda háskóla.


Ungt fólk á aldrinum 18 – 30 ára getur gengið í félagið. Einnig geta námsmenn, starfsmenn háskóla og nýútskrifaðir háskólastúdentar tekið þátt í starfinu. Skráning fer fram hér.

Aðild Q – félagsins var fagnað á 2. leiðtogaráðsfundi LUF þann 27. september sl. þar sem forseti félagsins kynnti félagið fyrir öðrum aðildarfélögum.

Stuðla að jafnrétti

Geir Finnsson, varaforseti LUF, afhendir Sólveigu Ástudóttur Daðadóttur, forseta Q – félagsins, aðildarviðurkenningu.

Stjórn LUF telur markmið Q – félagsins samræmast stefnu LUF í jafnréttismálum, en þar segir “LUF byggir starfsemi sína á jafnréttissjónarmiðum og berst fyrir lagalegu-, félagslegu- og fjárhagslegu jafnrétti ungs fólks. LUF krefst þess að öllu ungu fólki sé tekið alvarlega, óháð kynferði, kynhneigð, kyntjáningu, trúarbrögðum, skoðunum, tungumáls, þjóðernisuppruna, búsetu, fötlunar, örorku, aldurs, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. (…) LUF fagnar fjölbreytileika og krefst þess að stjórnvöld mæti ólíkum þörfum ungs fólks til þess að tryggja að allir geti notið sömu tækifæra.”

Aðild Q – félagsins kemur til með að styrkja starfsemi LUF enn frekar sem mikilvæg viðbót við fjölbreytta flóru sérþekkingar í málefnum ungs fólks sem einkennir starfsemi LUF.

“Við erum mjög ánægð með áheyrnaraðildina að LUF, það er mikilvægt að ungt hinsegin fólk séu með í umræðunni. Við í Q – félaginu erum margbreytilegur hópur og óhrædd að gæta hagsmuna þvert á jaðarsetta hópa.” sagði Sólveig Ástudóttir Daðadóttir, forseti Q – félagsins við tilefnið.

Með samþykkt stjórnar öðlast Q – félag hinsegin stúdenta áheyrnaraðild að LUF.

Stjórn LUF býður Q – félagið hjartanlega velkomið undir regnhlífina.