Rebekka Karsdóttir, fulltrúi SHÍ, var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviði sjálfbærrar þróunar á þriðja fundi Leiðtogaráðs Landssambands ungmennafélaga (LUF). Fundurinn fór fram í Iðnó í gær, 29. nóvember. Evlalía Kolbrún Ágústsdóttir, fulltrúi UU, hlaut næst flest atkvæði og mun hún því starfa sem varafulltrúi.

„Ég vil leggja upp úr því að valdefla fleiri til þess að rödd ungmenna hljómi enn hærra“

Rebekka hefur mikla reynslu af ýmsum sjálfboðastörfum og hefur hagsmunabarátta stúdenta innan Háslóla Íslands verið hennar helsti vettvangur að undanförnu þar sem hún gegnir nú starfi forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Rebekka er með BA-gráðu í lögfræði en hefur einnig stundað nám í líffræði. Þá hefur hún m.a. einnig starfað sem landvörður og laganemi meðfram námi ásamt því að sinna stjórnarstörfum hjá Ungum umhverfissinnum og Náttúruverndarsamtökum Austurlands.

Í framboðsræðu sinni lagði Rebekka herslu á hversu mikilvægt er að rödd ungs fólks fái að heyrast sem víðast. „[…] ég hef lært að starfa með allskonar fólki á öllum aldri og ég hef lært það, verandi oft eini „fulltrúi unga fólksins” að vera óhrædd við að láta í mér heyra og spyrja spurninga. Það skiptir alltaf máli að standa á sínu, en það er sérstaklega þegar man er treyst fyrir því að tala fyrir heila „kynslóð” – sem má setja spurningamerki við, af hverju það er alltaf bara þessi „eini”. Sem ungmennafulltrúi myndi ég nota þessa reynslu til að koma sjónarmiðum ungmenna á Íslandi í tengslum við sjálfbæra þróun á framfæri. Ég vil leggja upp úr því að valdefla fleiri í þessa vinnu með mér til þess að rödd ungmenna hljómi enn hærra.“ 

UN High-Level Political Forum

Ungmennafulltrúinn kemur til með að taka þátt í störfum ráðherrafundar Sameiðuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2023), sem fram fer í New York 10. – 19. júlí, í umboði ungs fólks á Íslandi.

Þátttaka ungmennafulltrúans er samstarfsverkefni LUF, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Forsætisráðuneytisins.

Sendinefnd LUF

Kjör ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði sjálfbærrar þróunar skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við.

Sendinefndin skipar nú fimm fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar, á sviði barna og ungmenna og á sviði kynjajafnréttis.

Stjórn LUF óskar Rebekku innilega til hamingju með kjörið og hlakkar til að vinna með henni á komandi misserum.

Málþing um stöðu og framtíð ungmennageirans

Samhliða fundi Leiðtogaráðs LUF stóð LUF fyrir málþingi um stöðu og framtíð ungmennageirans m.a. með það fyrir augum að fara yfir niðurstöður skýrslu um stöðu ungmennageirans, sem unnin var af LUF í samstarfi við nýsköpunarsjóð námsmanna og var gefin út árið 2021. Þá voru niðurstöður skýrslunnar settar í samhengi við Framtíðina: Stefnu um tómstunda- og félagsstarf barana og ungmenna til 2030, þ.e. stefnu Mennta- og barnamálaráðuneytisins í ungmennastarfi og aðgerðaráætlunar hennar. 

Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri LUF, kynnti þá stöðu sem uppi er í ungmennageiranum í dag, áskoranir sem LUF hefur verið að fást við ásamt sóknaráætlun LUF sem felur í sér að marka stefnu fyrir félagið til frambúðar.

Sigurður Helgi Birgisson, lögmaður LUF, kynnti starfsemi LUF í alþjóðlegu samhengi og þær stofnanir og samtök sem LUF hefur aðkomu að í yfirgripsmiklu alþjóðastarfi sínu, bæði innan stofnana Evrópuráðsins og hjá Sameinuðu þjóðunum. Þá fór Sigurður Helgi yfir æskulýðslög nr. 70/2007 sem til stendur að ráðast í endurskoðun á.

Þá fluttu þær Svava Gunnarsdóttir, formaður Æskulýðsráðs ríkisins, og Steinunn Ása Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Vestfjarðarstofu, erindi á málþinginu. Svava Gunnarsdóttir kynnti aðgerðaráætlun Mennta- og barnamálaráðuneytisins sem koma mun til framkvæmdar samhliða stefnu ráðuneytisins í málaflokknum. Erindi Steinunnar Ásu fjallaði um vendingar meðal ungmennaráða sveitarfélaga sem varða mögulega stofnun landshlutasamtaka ungmennaráða sem samræmist landshlutasamtökum sveitarfélaganna.

Að málþinginu loknu fór fram vinnustofa þar sem fulltrúar aðildarfélaganna og aðrir gestir komu með tillögur að forgangsatriðum varðandi sóknaráætlun LUF. Einnig var farið yfir þá þætti æskulýðslaga sem aðildarfélög LUF telja nauðsynlegt að breyta við endurskoðun laganna. Vinnustofan leiddi margt áhugavert í ljós en meðal þess sem þar kom fram var að aðildarfélög LUF telja nauðsynlegt að LUF verði fengið verkefni þjónustumiðstöðvar í ungmennastarfi, þar sem félagið hefur nú þegar sinnt því hlutverki eins og kostur er miðað við stöðu ungmennageirans hér á landi. Þá kom fram að aðildarfélög LUF telja æskulýðslög hamla ungmennastarfi um of þar sem starf með 6 ára börnum og 25 ára ungmennum er lagt að jöfnu í lögunum. Einnig var á það bent að óeðlilegt sé að gera sömu kröfur til annars vegar starfsmanna í ungmennastarfi og hins vegar sjálfboðaliða og leiðtoga sem starfa fyrir frjáls félagasamtök ungs fólks á grundvelli hugsjóna og hagsmunabaráttu. Þá töldu fulltrúar aðildarfélaga LUF að tryggja þyrfti aðkomu ungs fólks að Æskulýðsráði ríkisins í samræmi við Barnasáttmála SÞ sé ráðinu ætlað að vera ráðgefandi í málefnum ungs fólks.