Eftir stjórnarskipti á sambandsþingi Landssambands ungmennafélaga (LUF) þann 25. febrúar sl., sendi félagið tilkynningu um breytingar á stjórn til Ríkisskattstjóra; líkt og nýjum stjórnum er skylt.
Ríkisskattstjóri neitaði að taka tilkynningu félagsins til greina af þeim sökum að einn stjórnarmanna væri undir 18 ára aldri. Á fyrrnefndu sambandsþingi var fulltrúi Ungra Pírata réttkjörinn í stjórn, þá 16 ára að aldri.
Þegar stjórn LUF falaðist eftir frekari upplýsingum og rökstuðningi fengust þau svör að ólögráða einstaklingum væri óheimilt að sitja í stjórnum félagasamtaka. Þá gat Ríkisskattstjóri ekki vísað á lagaheimild máli sínu til stuðnings og ráðlagði LUF að kjósa nýjan, lögráða, einstakling í stjórn.
Ljóst er að neitun þessi gengur gegn lögum og brýtur þar að auki gegn mikilsverðum mannréttindum ungmenna. Stjórn LUF lítur málið alvarlegum augum og sendi því áskorun um endurskoðun málsins til Ríkisskattstjóra. Áskorunin var unnin í samstarfi við Barnaheill, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Umboðsmann barna og UNICEF á Íslandi, en allir þessir aðilar rituðu undir áskorunina sem send var Ríkisskattstjóra þann 9. júní 2017.
Ríkisskattstjóri hefur ekki enn brugðist við málinu þrátt fyrir ítrekun um svör.
Áskorunina í heild má lesa hér að neðan:
Áskorun til Ríkisskattstjóra
Börn eru einstaklingar með sjálfstæð mannréttindi. Eiga mannréttindaákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 því jafnt við um börn sem fullorðna, þar á meðal ákvæði um félagafrelsi og jafnræði. Réttindi barna til tjáningar og þátttöku í samfélaginu eru einnig sérstaklega tryggð í 12. til 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013. Eiga börn því sjálfstæðan rétt til þess að stofna og taka þátt í félögum.
Neðangreindir aðilar hafa orðið þess áskynja að Ríkisskattstjóri (hér eftir Rsk) hafi neitað almennum félögum um breytingar á skráningarskyldum upplýsingum sínum. Neitun, sem eitt neðangreindra félaga fékk, hefur Rsk byggt á þeim forsendum að ólögráða einstaklingur eigi sæti í stjórn og skrifi þar af leiðandi undir tilkynningu til Rsk. Þessa tilkynningu kveðst Rsk ekki geta tekið gilda vegna skorts á lögræði stjórnarmeðlims. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hefur Rsk ekki getað vísað til lagaheimildar settra laga, neitunum sínum til stuðnings, þó stofnunin sé bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Má því ætla að lagaheimild skorti fyrir því að synja börnum og ungmennum um setu í stjórnum almennra félaga eða félagasamtaka.
Til að bregðast við þessu hefur Rsk ráðlagt félaginu að reka aðila undir lögaldri úr stjórn sinni og kjósa nýjan lögráða stjórnarmeðlim. Því er ljóst að afstaða Rsk er sú að einstaklingar undir lögræðisaldri séu í raun ekki kjörgengir í stjórnir almennra félaga, óháð samþykktum félaganna sjálfra þrátt fyrir að lagaheimild fyrir þeirri afstöðu skorti. Þetta harma neðangreindir aðilar mjög og undra sig á vinnubrögðum Rsk í þessu máli, sér í lagi þar sem Rsk hefur ekki gefið félaginu færi á að fara vægari leið til að sinna lögbundinni skráningarskyldu sinni, í anda meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.
Vel kann að vera að vilji Rsk standi helst til þess að vernda ólögráða ungmenni, vegna þeirrar ábyrgðar sem stjórnarmenn almennra félaga kunna að bera. Þó ber að gæta þess að slíkar ráðstafanir falla ekki undir verksvið Rsk og hefur ekki verið falið stofnuninni með lögum. Samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 51. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 ráða foreldrar einstaklings, sem ólögráða er fyrir æsku sakir, persónulegum högum hans og fjárhag. Þó útiloka lögræðislög ekki að ólögráða einstaklingur beri skaðabóta- og refsiábyrgð, líkt og alkunna er. Þar að auki eru almenn félög, sem ekki eru rekin í ágóðaskyni, alls eðlisólík félögum sem stunda atvinnurekstur og því ekki eðlilegt að gera eins strangar kröfur fyrir stjórnarsetu.
Enn fremur telja neðangreindir aðilar félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar ná til fullrar þátttöku í almennum félögum og þar með ákvörðunarvalds og stjórnarsetu. Sú afstaða Rsk að neita ungmennum um þátttöku og að njóta réttinda í starfi almennra félaga telst því til mismununar á grundvelli aldurs, sem andstæð er jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Líkt og að framan greinir telja neðangreindir aðilar ekkert því til fyrirstöðu að ungmenni undir lögaldri, sem hafa til þess þroska og njóta trausts félagsmanna, taki sæti í fjölskipuðum stjórnum almennra félaga. Almennum félögum er lögum samkvæmt í sjálfsvald sett að skipa stjórnir sínar. Að því gefnu að samþykktir slíkra félaga felli ekki beina fjárhagslega ábyrgð á ólögráða einstaklinga, hefur Rsk ekki lagaheimild til afstöðu sinnar og synjunar á skráningu. Því skora neðangreindir aðilar á Rsk að virða sjálfstæð réttindi barna og falla frá ólögmætum verkferlum svo félagasamtök, sem yfirleitt hafa lítið fjárhagslegt bolmagn, þurfi ekki að sækja rétt sinn annað.
Í von um bætt vinnubrögð,
Barnaheill,
Landssamband ungmennafélaga,
Mannréttindaskrifstofa Íslands,
Umboðsmaður barna
og UNICEF á Íslandi