Landssamband ungmennafélaga (LUF) hefur ráðið Rut Einarsdóttur í stöðu verkefnastjóra félagsins. Rut tekur við af Heiðu Vigdísi Sigfúsdóttur sem sinnt hefur starfinu síðastliðið árið.
Rut er með BBA gráðu í hagfræði og nýsköpun frá Ritsumeikan Asia Pacific University í Japan. Hún er að ljúka við MSc í átaka-, stríðs- og þróunarfræðum frá SOAS, háskóla í London.
Rut býr yfir víðtækri reynslu af starfi félagasamtaka, jafnt hérlendis sem erlendis. Hún hefur setið í stjórn LUF frá vorinu 2019 og situr hún einnig í stjórn Kvenréttindafélags Íslands. Í rúman áratug hefur Rut tekið þátt í fjölbreyttu ungmennastarfi á vegum ýmissa félagasamtaka víða um heim sem og í heimabyggð sinni, Vesturbyggð. Í gegnum sjálfboðastörf og vinnu hefur Rut veigamikla reynslu af alþjóðastarfi og hefur hún til að mynda verið fulltrúi ungs fólks á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun (UNCTAD), sat sem ungmennafulltrúi Íslands á sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins og hefur verið fulltrúi LUF í ráðgjafaráði Evrópuráðsins um málefni ungs fólks.
Rut kemur til með að hafa umsjón með helstu verkefnum LUF, einkum lýðræðisverkefni og leiðtogafræðslu. Rut mun halda utan um upplýsingamiðlun félagsins og skipulagningu viðburða. Hún mun einnig aðstoða við rannsóknir, fjármögnun, stefnumótun, málefnastarf, skýrslu- og greinaskrif sem og önnur tilfallandi verkefni.
Stjórn og skrifstofa LUF þakkar Heiðu Vigdísi kærlega fyrir samstarfið og óska henni alls hins besta í öðrum verkefnum.
“Á sama tíma og Heiðu verður saknað eru spennandi tímar framundan hjá LUF. Vegna Covid-19 hafa mörg verkefni á skrifstofunni safnast upp og því verður töluvert álag á skrifstofunni á komandi misserum. Það er því mikil gæfa að hafa fengið Rut til starfa þar sem að hún þekkir innra starf félagsins og býr yfir djúpstæðri þekkingu á málaflokknum í alþjóðlegu samhengi.” segir Tinna Isebarn framkvæmdastjóri LUF.
Stjórn LUF