Rut Einarsdóttir, ritari Landssambands ungmennafélaga (LUF), hélt nýverið ávarp á TEDx Talks. Þar segir hún brýnt að auka aðkomu ungs fólks að ákvörðunartöku, á öllum stjórnsýslustigum, til að sporna við hlýnun jarðar.
Rut talar um mikilvægi þess að vinna í átt að sjálfbærni með aðgerðum sem taki mið af samtali þvert á kynslóðir. Hún vekur athygli á þeim gríðarlegu áhrifum sem stríðsátök hafa á umhverfið og að brýnt sé að endurskoða útgjöld til hernaðar á heimsvísu. Í því samhengi segir Rut mikilvægt að auka aðkomu ungs fólks að allri ákvarðanatöku, þar með talið á þeim sviðum er varða öryggis- og friðarmál.
„Þegar rætt er um framtíðina hefur fólk tilhneigingu til að segja að við þurfum að varðveita framtíðina fyrir börn okkar og barnabörn; að við þurfum að vinna að sjálfbærri lifnaðarháttum til að koma á stöðugleika á jörðinni fyrir komandi kynslóðir.
Ég tel að það sé löngu orðið tímabært að gefa ungu fólki pláss í samtalinu, frekar en að líta á það sem þögla vegfarendur í samfélaginu þangað til þau þurfa loksins að takast á við óreiðuna sem fyrri kynslóðir skildu eftir sig,“ segir hún í upphafi.
Ávarp Rutar í heild sinni: