Sigurður Helgi Birgisson var ráðinn inn sem verkefnastjóri Landssambands ungmennafélaga (LUF) sumarið 2019 og gegndi m.a. hlutverki starfandi framkvæmdastjóra félagsins tímabundið síðastliðinn vetur. Verða þá starfsmenn á skrifstofu félagsins alls þrír talsins, þ.e. framkvæmdastjóri, verkefnastjóri og lögfræðingur.

Markmið LUF er skv. samþykktum „að tala fyrir hagsmunum ungs fólks á Íslandi“ og „vernda og efla réttindi ungs fólks og bregðast við þegar þau eru virt að vettugi.“ Þá telur stjórn LUF nauðsynlegt að félagsmenn LUF hafi aðgengi að löglærðum sérfræðingi í ljósi þeirra grafalvarlegu mála sem hafa ratað á skrifstofu LUF í gegnum tíðina. 

Í ljósi þess að víða er pottur brotinn þegar kemur að réttindum ungs fólks hafa sífellt fleiri aðildarfélög og félagsmenn leitað eftir aðstoð og ráðgjöf vegna mála sem varða hagsmuni þeirra og réttindi. Framkvæmdastjóri hefur hingað til sinnt þessari þjónustu eftir bestu getu en oftar en ekki eru mál þess eðlis að töluverðar sérfræðiþekkingar er krafist við úrlausn þeirra auk þess sem málafjöldinn hefur aukist. Stjórn LUF telur því eðlilegast að löglærður einstaklingur sinni þessari grundvallarþjónustu félagsins og er ætlunin að bæta úr því með ráðningunni. Telur stjórn LUF að félagið verði í kjölfarið mun betur í stakk búið til að veita ungu fólki nauðsynlega aðstoð við úrlausn flókinna mála, auk þess að beita sér af meiri krafti fyrir ýmsum hagsmunamálum ungs fólks til frambúðar með auknum áhrifum við stefnumótun og lagasetningu.

Sigurður Helgi er með meistaragráðu í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands og hefur komið að stjórn og rekstri LUF í um sex ár. Hann hefur töluverða reynslu af störfum félagasamtaka og hefur tekið virkan þátt í hagsmunabaráttu af ýmsum toga um áratuga skeið ásamt fjölbreyttri starfsreynslu.

Sem lögfræðingur LUF mun Sigurður Helgi hafa yfirumsjón með hagsmuna- og réttindamálum LUF. Hann mun þjónusta aðildarfélög með almenna hagsmunagæslu og veitir ungu fólki sem telur á rétti sínum brotið lögfræðilega ráðgjöf sé eftir því leitað. Hann mun leiða umsagnagerð félagsins um þingsályktanir og lagafrumvörp, vera stjórn til ráðgjafar og framkvæmdastjóra til aðstoðar.

„Undanfarin ár hefur Sigurður Helgi gegnt lykilhlutverki hjá LUF þegar upp hafa komið ýmis lagatæknilega flókin mál, svo að í sjálfu sér er hlutverk hans ekki að breytast mikið. Með nýju hlutverki lögfræðings mun LUF loksins hafa burði til þess að sinna skyldu sinni í samræmi við samþykktir félagsins með fullnægjandi hætti. Sigurður Helgi býr yfir djúpstæðri þekkingu á málaflokknum, skilur innra starf félagsins og hefur þá sérfræðiþekkingu sem til þarf,” segir Tinna Isebarn framkvæmdastjóri LUF um nýtt hlutverk Sigurðar. 

Stjórn Landssambands ungmennafélaga