Síðastliðinn sunnudag,  25. febrúar, fór fram sambandsþing Landssambands ungmennafélaga (LUF) í Háskóla Íslands þar sem fulltrúar þingsins kusu sér nýja stjórn. Sigurður Helgi Birgisson, fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands var endurkjörinn formaður, en áður hafði hann gegnt embætti alþjóðafulltrúa. Er hann því að hefja þriðja kjörtímabilið sitt í stjórn LUF. Þá var Laufey María Jóhannsdóttir fulltrúi Ungra athafnakvenna og fráfarandi alþjóðafulltúi var kjörin varaformaður, Marinó Örn Ólafsson fulltrúi Ungra jafnaðarmanna var endurkjörinn gjaldkeri, Una Hildardóttir fulltrúi Ungra Vinstri grænna var endurkjörin ritari og Ragnheiður Kristín Finnbogadóttir fulltrúi Uppreisnar – Ungliðahreyfingu Viðreisnar var kjörin alþjóðafulltrúi félagsins. Kosnir voru tveir meðstjórnendur, þau Páll Marís Pálsson fulltrúi Ungra framsóknarmanna og Inger Erla Thomsen fulltrúi Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Kóder, sem vinnur að því að gera fræðslu í upplýsingatækni og forritun aðgengileg fyrir börn og ungmenni með áherslu á jöfn tækifæri sótti um fulla aðild að sambandinu í ár og var umsóknin samþykkt með einróma lófataki allra þingfulltrúa, en 30 ungmennafélög eiga aðild að sambandinu.

Þingið samþykkti nýja stefnu félagsins sem skiptist í fjórar megináherslur: Réttindi ungs fólks, þátttaka ungs fólks, sjálfstæði ungs fólks og sterk ungmennafélög. Yfirgnæfandi meirihluti þingsins kaus „sjálfstæði ungs fólks“ sem þema ársins, en undir þá áherslu falla heilbrigðis-, atvinnu-, mennta- og húsnæðismál ungs fólks. Er sú niðurstaða merkileg að því leytinu til að LUF hefur ekki formfest þá málaflokka í stefnu áður. Rennur niðurstaðan stoðum undir þörfina fyrir heildstæðari stefnu hins opinbera um málefni ungs fólks, en slík fyrirfinnst í flestum ríkjum heims. LUF krefst þess að sjónarhorni ungs fólks sé fléttað inn í alla stefnumótun og að tekið sé tillit til þarfa ungs fólks á öllum sviðum samfélagsins. Þetta þýðir að ný stjórn er skuldbundin til að vakta Alþingi og krefjast aðkomu í ákvarðanatöku sem málin snerta og vinna viðameiri stefnuályktanir.

Þörfin fyrir LUF, sem þverpólitískur samstarfs- og samráðsvettvangur, er mikilvægari aldrei sem fyrr. Ef þörfum ungs fólks er ekki mætt er hætta á að trú ungs fólks á lýðræði bresti. Forsenda þess að LUF geti starfað sem sameiginlegur málsvari ungs fólks er aukið samstarf við stjórnvöld og viðunandi fjárhagslegur stuðningur.

Fulltrúar fráfarandi og nýrrar stjórna vilja þakka öllum þeim sem mættu á þingið og sömuleiðis öllum aðildarfélögum LUF fyrir gott samstarf á liðnu kjörtímabili. LUF fagnar því að við bættust þrír reynsluboltar við meirihluta stjórnar sem mun halda áfram að leiða starfið af krafti annað árið í röð, sem tryggir samfellu í starfi og komandi verkefnum. Þá sérstaklega framkvæmd lýðræðisverkefnisins #ÉgKýs fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar, þróun leiðtogaskólans og verkefnum sem tengjast frekari innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ný stjórn lítur björtum augun á verkefnin framundan og hlakkar til áframhaldandi starfa.