Landssamband Ungmennafélaga (LUF) hefur ráðið Sigurð Helga Birgisson, 27 ára laganema, í starf verkefnastjóra félagsins. Starfið var auglýst laust til umsóknar fyrr í sumar vegna aukinna umsvifa félagsins og barst fjöldi umsókna hæfra umsækjenda.

Sigurður Helgi hefur mikla reynslu af starfi félagsins en hann gengdi embætti alþjóðafulltrúa stjórnar þess starfsárið 2016-2017 og var formaður stjórnar í tvö ár eða árin 2017-2019. Þá gengdi hann formennsku í Norðurlanda og Eistrasaltsríkjabandalaginu (e. Nordic Baltic Cooperation) þar sem LUF tekur þátt í formlegu samstarfi við  systursamtök þess innan Evrópska ungmennavettvangsins (e. European Youth Forum – YFJ) og Evrópuráðsins, fyrir hönd félagsins árið 2018. 

Sigurður Helgi er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, er með BA-gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og er að ljúka meistaranámi við lagadeild Háskóla Íslands.

Sigurður Helgi hefur fjölbreytta starfsreynslu, en hann hefur meðal annars starfað sem hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, þar sem hann sat í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir hönd stúdenta, sem fulltrúi hjá Sjúkratryggingum Íslands, sem verkefnastjóri hjá hjá Elju, þjónustumiðstöð atvinnulífsins og þá hefur hann einnig starfað við kosningastjórn. Sigurður Helgi hefur einnig áralanga reynslu af ýmsum félagsstörfum en hann hefur meðal annars setið í stjórn Framtíðarinnar, málfundafélags Menntaskólans í Reykjavík, stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, stjórn Varðar, fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, stjórn Róms vefmiðils og þar að auki gengdi hann formennsku í Félagi sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi.

Á árum sínum í stjórn LUF lagði Sigurður Helgi áherslu á að koma á fót verkefninu #ÉgKýs og skuggakosningum ásamt frekari mótun þess. Þá lagði hann mikla áherslu á að stofna sendinefnd íslenskra ungmenna hjá Sameinuðu þjóðunum. Einnig barðist hann fyrir auknum borgaralegum réttindum ungmenna og talaði fyrir lækkun kosningaaldurs og réttindum lýðræðislega kjörinna ungmenna til að gegna störfum innan stjórna ungmennafélaga.

Stjórn Landssambands ungmennafélaga