Skörungur – íslensku ungmennaverðlaunin veitt í fyrsta sinn

Skörungur – íslensku ungmennaverðlaunin fóru fram í fyrsta sinn þriðjudaginn 5. desember á alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans. Um er að ræða nýjan þakkar- og hvatningarviðburð ungs fólks þar sem sjálfboðaliðastörf og framtök í þágu hagsmuna og réttinda ungs fólks eru heiðruð. Landssamband ungmennafélaga (LUF) stendur fyrir viðburðinum.

Veitt voru verðlaun og viðurkenningar í fjórum flokkum:

Verkefni ársins:

Verðlaunin eru veitt fyrir verkefni sem fram hefur farið á árinu sem skilað hefur árangri í hagsmuna- og réttindabaráttu ungs fólks.

Samtök ungra bænda hlutu viðurkenningu fyrir baráttufund sinn Laun fyrir lífi þar sem þau „börðust fyrir lífi sínu og sveitanna” og vöktu athygli á skorti á aðgerðum til að styðja við nýliðun í bændagreininni ásamt vannýtingu tækifæra innan hennar.

UAK – ungar athafnakonur hlutu einnig viðurkenningu fyrir ráðstefnu sína Jafnrétti á okkar lífsleið. Markmið ráðstefnunnar var að vekja athygli á alvarlegri afturför í jafnréttismálum samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. En í skýrslunni voru loftslagsbreytingar, heimsfaraldur COVID-19 og stríð í Úkraínu meðal áhrifavaldandi þátta. Þá sýna nýjar tölur að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um að kynjajafnrétti náist fyrir árið 2030 verði ekki hægt að uppfylla fyrr en í fyrsta lagi eftir þrjú hundruð ár. Á ráðstefnunni var því leitast við að svara spurningum líkt og hvar Ísland stendur á heimsvísu og hvernig hægt sé að hafa áhrif á einstaklingsgrundvelli og sem samfélag. 

Skörunginn 2023 í flokknum verkefni ársins hlutu Ungir umhverfissinnar fyrir verkefni sitt, Tunglið. Tunglið er framhaldsverkefni Sólarinnar, einkunnagjöf Ungra umhverfissinna fyrir alþingiskosningar 2021, þar sem stefnur stjórnmálaflokka voru metnar út frá metnaði þeirra í umhverfismálum. Markmið Tunglsins er að meta árangur ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum það sem af er kjörtímabili út frá gjörðum þeirra frekar en orðum þar sem aðgerðir eru það sem skilar raunverulegum árangri en ekki innantóm loforð.

Bára Örk Melsted, fræðslu- og kynningarfulltrúi Ungra umhverfissinna tekur við Skörungnum 2023 fyrir verkefni ársins, frá Geir Finnssyni, forseta LUF.

Framlag til mannréttinda:

Verðlaunin eru veitt einstaklingi fyrir verðugt framlag til mannréttinda og baráttu ungs fólks fyrir réttindum sínum.

Sunna Dögg Ágústsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framlag sitt mannréttinda. Sunna Dögg hefur frá árinu 2020 verið leiðandi fulltrúi ungmennaráðs Þroskahjálpar og hefur síðan þá verið öflugur talsmaður fyrir réttindum ungs fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu. Sunna hefur komið víða við, enda í fararbroddi í réttindabaráttu málaflokksins. Til að nefna dæmi hefur Sunna tekið þátt í stefnumótun stjórnvalda og beitt sér í málaflokkum á borð við atvinnu- og menntamál, netöryggismál sem og tómstunda- og félagsmál ungmenna. Í þessum málaflokkum hefur Sunna beitt sér bæði hérlendis og á alþjóðavísu í þágu jaðarsettra ungmenna.

Askur Hrafn Hannesson hlaut þá einnig viðurkenningu fyrir framlag sitt til mannréttinda. Askur er núverandi forseti Ungliðahreyfingar íslandsdeildar Amnesty International og hefur hann verið afkastamikill í mannréttindabaráttu á Íslandi, verandi einn stofnanda hreyfingarinnar Fellum frumvarpið auk þess að standa fyrir og koma að skipulagningu mótmæla og viðburða sem kastað hafa ljósi á mannréttindi.

Skörunginn árið 2023 fyrir framlag til mannréttinda hlaut Rebekka Karlsdóttir. Rebekka er fyrrverandi forseti Stúdentaráðs Háskóla íslands ásamt því að vera ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðanna á sviði sjálfbærrar þróunar. Í því embætti var Rebekka ötull talsmaður raunverulegs samráðs við ungt fólk og barðist hún af krafti gegn hvers konar sýndarsamráði. Má framlag Rebekku til baráttunnar um kröfu ungs fólks um að raunverulegt samráð við yngri kynslóðir í hvers konar stefnumótun og ákvarðanatöku samfélagsins teljast sem verðugt framlag til mannréttinda og baráttu ungs fólks fyrir réttindum sínum.

Geir Finnsson, forseti LUF, ásamt Rebekku Karlsdóttur, ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar, sem hlaut Skörunginn 2023 fyrir framlag til mannréttinda.

Framtak í þágu ungs fólks:

Verðlaunin eru veitt einstaklingum, hópum, félögum, stofnunum eða fyrirtækjum fyrir eftirtektarvert framtak í þágu hagsmuna og réttinda ungs fólks.

Ungliðahreyfing íslandsdeildar Amnesty International hlaut viðurkenningu fyrir mannréttindasmiðju fyrir ungt fólk á aldrinum 15-18 ára. En markmið smiðjunnar var að gefa ungu fólki sem brennur fyrir mannréttindum vettvang til að efla eigin rödd og tjáningu og vinna saman með skipulögðum og ánægjulegum hætti í þágu mannréttinda.

Ungheill – ungmennaráð Barnaheilla hlutu einnig viðurkenningu fyrir ákaflega gróskulegt starf sitt í ár sem miðaði að valdeflingu ungs fólks í gegnum hin ýmsu verkefni og viðburði sem miðuðu að því að berjast fyrir réttindum barna og vekja athygli ráðafólks á hagsmunum þeirra.

Skörunginn árið 2023 fyrir framtak í þágu ungs fólks hlutu sveitarfélögin Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð fyrir að hafa heimilað, í fyrsta sinn á íslandi, 16 og 17 ára ungmennum að taka þátt í bindandi íbúakosningum  9. – 28. október 2023, er ákvörðuðu sameiningu sveitarfélaganna tveggja. Verðlaununum veittu viðtöku tveir 16 ára framhaldsskólanemar frá sveitarfélögunum.

Sólrún og Rakel, 16 ára framhaldsskólanemar frá Tálknafjarðarhreppi og Vesturbyggð taka við Skörungnum 2023 fyrir framtak í þágu ungs fólks, fyrir hönd sveitarfélaga sinna.

Sjálfboðaliði ársins:

Verðlaunin eru veitt meðlimi aðildarfélags LUF fyrir eftirtektaverða framtakssemi og dugnað í sjálfboðaliðavinnu í þágu síns félags.

Viðurkenningu í flokknum hlaut Ida Karólína Harris fyrir sjálfboðaliðastörf sín í þágu Ungra umhverfissinna. En Ida er einn af aðal skipuleggjendum loftslagsmótmæla ungs fólks, sem fram fara hvern föstudag við Austurvöll. Ávallt megi finna Idu með heimatilbúið skilti sitt að krefjast aðgerða í loftslagsmálum á Austurvelli á föstudögum sama hvernig viðrar, þá víkur hún sé aldrei undan því að uppfræða fólk um loftslagsvánna og hvernig á henni megi vinna bug.

Aníta Sóley Scheving Þórðardótti hlaut einnig viðurkenningu í flokknum fyrir eftirtektarverða framtakssemi sína sem leiðtogi Ungheilla – ungmennaráðs Barnaheilla ásamt öðrum félagsstörfum hennar þar sem hún hefur látið gott af sér leiða í hagsmunabaráttu ungs fólks.

Skörunginn 2023 fyrir sjálfboðaliða ársins hlaut An Wing Lee (Shannon) fyrir mikinn dugnað sem sjálfboðaliði til margra ára sem hefur farið langt fram úr því sem hefur verið ætlast til af henni og framlag hennar þótt ómissandi fyrir starfsemi AFS á íslandi. Á hana megi ávallt reiða og hefur skipt sköpum í skipulagi og móttöku erlendra skiptinema á Íslandi.

Fór verðlaunaafhending fram með hátíðlegum hætti í Mannréttindahúsinu, Sigtúni 42, sem sameinar fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendu. Þá var Skörungurinn 2023 liður í mannréttindaviku hússins.