Félagi ársins er árleg viðurkenning fyrir sjálfboðastarf innan aðildarfélaga LUF. Um er að ræða hvatningarviðburð þar sem aðildarfélögin velja framúrskarandi félagsmann sem þau vilja umbuna fyrir vel unnin störf og hita upp fyrir sambandsþing. Allir sem hlutu tilnefningu fengu viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Hvert aðildarfélag gat tilnefnt einn framúrskarandi félagsmann til Félaga ársins. 

Viðburðurinn fór fram 25. febrúar 2021 með óhefðbundnu sniði í ljósi aðstæðna. Allir sem voru tilnefndir var boðið að koma í Hitt húsið að taka á móti viðurkenningum á opnum viðburði sem streymt var á samfélagsmiðlum. Sex einstaklingar sem voru tilnefndir til Félaga ársins 2020 voru eftirfarandi: 

  • Finnur Ricart Andrason / UU
  • Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir / UNF
  • Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir / SUF
  • Ragna Guðfinna Ólafsdóttir / Hugrún – geðfræðslufélag
  • Sunna Dögg Ágústsdóttir / Ungmennaráð Þroskahjálpar
  • Urður Einarsdóttir / SHÍ 

Í dómnefnd sátu þau Tinna Isebarn framkvæmdarstjóri, Geir Finnsson oddviti leiðtogaráðs og Inga Auðbjörg Straumland, fyrrverandi forseti LUF. 

Sunna Dögg Ágústsdóttir, tilnefnd af Ungmennaráði Þroskahjálpar, hreppti titilinn „Félagi ársins 2020“ fyrir tekið óeigingjarna forystu og sýnt alúð í starfi innan ungmennageirans á Íslandi árið 2020 og tók hún heim farandsbikarinn. 

Erfitt val dómnefndar

Geir Finnsson veitti öllum tilnefndum félögum viðurkenningu frá LUF og blóm. Tinna Isebarn, fulltrúi dómnefndar tilkynnti svo úrslit dómnefndar, en hún minntist á hversu mjótt hefði verið á munum, enda stór hópur ungs fólks á Íslandi að vinna framúrskarandi starf; „en var það þó einróma niðurstaða dómara að veita Sunnu Dögg Ágústsdóttur viðurkenninguna, Félagi ársins 2020.” sagði Tinna. 

Ungmennaráð Þroskahjálpar tilnefndi Sunnu Dögg, en í rökstuðningi sínum sagði ráðið m.a að  „Hún er óþreytandi að læra og leggja sig fram við að skilja og er öflugur talsmaður breiðs hóps ungs fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu. Þá ber einnig að geta þess hversu góð áhrif Sunna hefur í hópnum sem ungmennaráð Þroskahjálpar er, hún ber virðingu og fyrir öllum og hefur þann hæfileika að fá fólk til að hafa trú á sjálfu sér og hugmyndum sínum.”

LUF prófreyndi í fyrsta skipti að streyma viðburði í beinni útsendingu og tókst vel til. Nú er hægt að nálgast streymið á facebook síðu félagsins þar sem hægt er að horfa á viðburðinn og afhendingu viðurkenninganna á netinu. Stefnir nú LUF á að hafa alla viðburði í beinu streymi til þess að gera viðburði enn aðgengilegri fyrir félaga alls staðar á landinu, og víðar.