Landssamband ungmennafélaga (LUF) hefur ráðið Þorbjörgu Örnu Jónasdóttur í stöðu verkefnastjóra félagsins sumarið 2021.

Þorbjörg er að klára sitt fyrsta ár í alþjóðafræði í Leiden University í Den Haag í Hollandi. Samhliða því námi er hún í stjórnsýslu og alþjóðamálum í Honours College við sama háskóla.

Þorbjörg hefur verið virkur þátttakandi í félagsstörfum hérlendis sem og erlendis. Hún byrjaði ung í Ráðgjafahóp Umboðsmanns barna þar sem að hún sótti fundi, ráðstefnur og aðra viðburði sem að fjölluðu um málefni barna og ungmenna. Það var upphafið að frekari félagsstörfum en síðar hlaut hún námsstyrk til að sækja Norska alþjóðlega menntaskólann „United World College Red Cross Nordic“, þar sem hún kláraði IB gráðu eða alþjóðlegt stúdentspróf. Í skólanum tók Þorbjörg þátt í ýmsum félagsstörfum, t.d á vegum Amnesty international, Natur og ungdom, SOS barnaþorpa og Rauða krossins. Eitt af aðalverkefnum hennar var skipulagning ráðstefnunnar „Model United Nations“, þar sem hún gegndi stöðu framkvæmdastjóra. Auk þess hefur Þorbjörg unnið að verkefnum um norrænt samstarf, sjálfbærni og menningarlegan skilning milli nemenda.

Í sumar mun Þorbjörg verkefnastýra ýmsum verkefnum á vegum LUF, einkum alþjóðlegum samstarfsverkefnum LUF. „Við hlökkum til að starfa með Þorbjörgu og er ég viss um að hennar reynsla og þekking komi til með að nýtast okkur vel í þeim verkefnum sem framundan eru,“ segir Tinna Isebarn framkvæmdastjóri LUF um ráðningu Þorbjargar. 

Þorbjörg Arna