
Þann 5 desember, á Alþjóðlegum degi sjálfboðaliðans veitti Landssamband Ungmennafélaga viðurkenninguna Félagi ársins í fjórða sinn við hátíðlega athöfn í Lestrarsal Safnahússins. Tilgangur viðburðarins er að hvetja ungt fólk í sjálfboðastarfi til dáða enda er starfsemi ungmennageirans að nær öllu leiti drifin áfram af ómetanlegu sjálfboðaliðastarfi öflugra ungmenna. Er tilgangur viðurkenningarinnar ekki síður að kynna ungmennastarfsemi fyrir almenningi með því að varpa ljósi á vel unnin störf innan ungmennafélaga á Íslandi. Í ár voru sex ungmenni heiðruð fyrir vel óeigingjarna vinnu, þau Inga Huld Ármann frá Stúdentaráði Háskóla Íslands, Inger Erla Thomsen, frá Ungum jafnaðarmönnum, Kolbrún Tómasdóttir, frá Elsa Ísland, Rafn Helgason frá Uppreisn, Tinna Hallgrímsdóttir frá Ungir umhverfissinnum og Unnur Þöll Benediktsdóttir frá Sambandi ungra Framsóknarmanna.

Í ár hlaut Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna nafnbótina Félagi Ársins. Segir í rökstuðningi valnefndar “Áhugi hennar og baráttuandi í verkefnum sem tilheyra umhverfis- og loftslagsmálum er smitandi. Tinna hefur leitt áfram stór verkefni innan Ungra umhverfissinna á þessu ári, svo sem verkefnið Sólina, sem var matskvarði á frammistöðu stjórnmálaflokkanna í loftslagsmálum, en verkefnið vakti mikla athygli kjósenda. Þá má einnig nefna verkefni á borð við upplýsingafundi Loftslagsverkfallsins, þátttöku á COP26 ráðstefnunni í Glasgow, og í fyrra stóð hún vaktina sem ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar.
Þátttaka félaga, umsvif félagsins og sýnileg þátttaka ungs fólks í loftslags- og umhverfismálum hefur stóraukist undir stjórn Tinnu hjá Ungum umhverfissinnum, en áhrifa þeirrar forystu sem Tinna sýnir í umhverfismálum gætir langt utan vébanda félagsins. Hún er einfaldlega leiðandi í samfélagsumræðu landsins og til fyrirmyndar, bæði í sinni formennsku og í sínu persónulega lífi. Í einu orði: náttúruafl.”

Í þakkarræðu sinni tileinkaði Tinna viðurkenninguna öllum í stjórn félagsins og meðlimum í ungum umhverfissinnum og sagðist vera með ómetanlegt fólk á bak við sig. Hún ætli að nýta viðurkenninguna sem hvatningu til þess að valdefla og virka ungt fólk og veita því rödd í samfélaginu.
Óskar stjórn Landssambands Ungmennafélaga Tinnu innilega til hamingju með titilinn Félagi Ársins 2021. Viðburðurinn var styrktur af Mennta- og menningarmálaráðuneyti sem átaksverkefni í æskulýðsstarfi í kjölfar heimsfaraldurs og var viðurkenningarathöfn sýnd í beinni útsendingu á Facebook síðu LUF. Hægt er að horfa á upptöku af viðburðinum hér.