Frjáls félagasamtök ungs fólks eru hvött til að sækja um aðild að Landssambandi ungmennafélaga. Því fleiri mismunandi félög sem mynda þennan samstarfs- og samráðsvettvang, því betur verður unnt að standa vörð um hagsmuni ungs fólks.

Umsóknarferlið:

  1. Umsóknarfélagið fyllir út umsóknareyðublað.
  2. Sendir eyðublaðið ásamt fylgigögnum (lögum/samþykktum félagsins, nýjustu ársskýrslu, fjárhags- og framkvæmdaáætlun og staðfestingu á skráningu í fyrirtækjaskrá) á youth@youth.is.
  3. Umsóknin verður lögð fyrir nefnd sem fer yfir umsóknargögnin með hliðsjón af aðildarskilyrðum um aðild og leggur fram skýrslu til stjórnar. Um leið og skýrslan liggur fyrir verður skriflegt álit stjórnar sent á formann umsóknarfélagsins. Telji stjórn að umsóknarfélagið uppfylli aðildarskilyrði fær það áheyrnaraðild með skriflegu áliti stjórnar.
  4. Umsóknin verður lögð fyrir næsta sambandsþing og öðlast umsækjandi fulla aðild með staðfestingu þingsins, kosninga- og kjörgengisrétt.
Hlaða niður umsóknareyðublaði

Frekari upplýsingar um aðildarumsóknir veitir Tinna Isebarn framkvæmdastjóri LUF í gegnum tinna.isebarn@youth.is

Aðildarskilyrði:

  1. Viðurkennd landssamtök ungs fólks, eða starfa fyrir ungt fólk.
  2. Lýðræðisleg, frjáls og sjálfstætt starfandi félög.
  3. Meginþungi starfseminnar er að vinna fyrir ungmenni og málefni þeirra.
  4. Félög geta ekki verið aðildarfélag LUF en einnig aðildarfélag annars félags sem einnig er aðildarfélag LUF.
  5. Ef starfið er hluti af víðtækari starfssemi þarf aðildarfélagið að vera sérstök ungmennadeild sem er með sjálfstæða ákvarðanatöku í eigin málum frá meginfélaginu.
  6. Mismuna ekki fólki vegna kynferðis, kynhneigðar, kyntjáningar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar eða stöðu að öðru leyti.
  7. Vilji til að starfa samkvæmt lögum LUF.

Ungliðadeildir/ráð innan frjálsra félagasamtaka sem eru ekki með sjálfstæða ákvörðunartöku geta fengið áheyrnaraðild. Félög sem hafa áheyrnaraðild hafa fullan aðgang að félaginu en hafa ekki atkvæðisrétt á fulltrúaráðsfundum eða sambandsþingi og geta ekki átt fulltrúa í stjórn. Félögum með áheyrnaraðild ber að greiða árgjald til félagsins og hafa vilja til að starfa samkvæmt lögum þessum.

Árgjald:

Öll aðildarfélög LUF greiða árgjald. Upphæðin er ákvörðuð af aðildarfélögunum á sambandsþingi ár hvert skv. 29. gr. laga LUF. Á sambandsþingi 2018 var ákveðið að halda gjaldinu í 5000 kr. á ári, óbreyttu frá sambandsþingi 2017. LUF lítur á aðildargjaldið sem táknrænt gjald í formi viljayfirlýsingar um samstarf og er fjármagnið notað til þess að halda utan um sambandsþing og fulltrúaráðsfundi. Aðildarfélögin fá senda kröfu sem er greidd í gegnum heimabanka.

LUF vekur athygli á því að skv. 14. gr. laga LUF verða aðildarfélög með fulla aðild að hafa greitt árgjaldið fyrir sambandsþing til þess að hafa atkvæðisrétt á þingi. En 29. gr. laga LUF getur veitt undantekningu frá þeirri reglu ef óskað er eftir undanþágu frá árgjaldi, hafi aðildarfélag ekki fjárhagslega burði til greiðslu þess. Undanþágubeiðni skal send á youth@youth.is ásamt gögnum til rökstuðnings.