Síðastliðinn laugardag,  29. febrúar, fór fram sambandsþing Landssambands ungmennafélaga (LUF) í Hinu húsinu þar sem fulltrúar þingsins kusu sér nýja stjórn og ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.

Una Hildardóttir, fulltrúi Ungra Vinstri grænna var endurkjörin forseti LUF,  hún er að hefja fjórða kjörtímabilið sitt í stjórn félagsins. Geir Finnsson fulltrúi Uppreisnar – Ungliðahreyfingu Viðreisnar var endurkjörinn varaforseti, Ásdís Nína Magnúsdóttir, fulltrúi Ungra umhverfissinna var kjörin gjaldkeri, Rut Einarsdóttir fulltrúi Sambands íslenskra námsmanna erlendis, var endurkjörin ritari og Sara Þöll Finnbogadóttir fulltrúi Samband íslenskra framhaldskólanema var endurkjörin alþjóðafulltrúi félagsins. Kosnir voru tveir meðstjórnendur en alls bárust þrjú framboð, kjörnar voru þær Tanja Teresa Leifsdóttir fulltrúi Ungra athafnakvenna og Steinunn Ása Sigurðardóttir fulltrúi Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands sem er að hefja annað kjörtímabil sitt. Að auki voru kosnir tveir varamenn, þeir Viktori Inga Lorange, fulltrúi Ungmennadeildar Norræna félagsins og  Hreiðar Már Árnason, fulltrúi Samfés og fyrrum formaður LUF.

Una Hildardóttir fer yfir störf LUF á liðnu ári

Fulltrúaráð verður leiðtogaráð

Lagabreytingar voru nokkrar að þessu sinni. Breyting var gerð á heiti embætta þar sem formaður og varaformaður breyttist í forseta og varaforseta. Er Una því fyrsti forseti LUF. Auk þess voru gerðar breytingar á fulltrúaráði LUF sem breytist í leiðtogaráð. Tilgangurinn er að efla starf ráðsins og einfalda samsetningu þess. Vegna aukinna umsvifa LUF og aukinna áhrifa ráðsins samhliða er nauðsynlegt að fulltrúar þess hafi skýrt umboð frá stjórn aðildarfélaga til að koma fram fyrir hönd aðildarfélaga og taka ákvarðanir fyrir þau. 

Nýtt félag undir regnhlíf LUF

Tvö félög sóttu um aðild að LUF á starfstímabilinu. Ungmennaráð UNICEF sótti um fulla aðild  og Ungmennaráð Þroskahjálpar um áheyrnaraðild. Umsóknirnar voru báðar samþykktar með einróma lófataki allra þingfulltrúa, en nú eiga 32 félög eiga aðild að landssambandinu. 

Ungmennaráð UNICEF var áður áheyrnaraðili en hefur nú að mestu hlotið sjálfstæðið sem þarf til að falla undir lög LUF um fulla aðild. Hlutverk ráðsins er að vinna að verkefnum sem vekja athygli á réttindum og hagsmunum barna, bæði á Íslandi og í öðrum löndum og styst ráðið við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í verkefnum sínum.

Sigurður Helgi og Jökull Ingi, oddviti Ungmennaráðs UINICEF

Ungmennaráð Þroskahjálpar er nýstofnað fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára með þroskahömlun eða aðrar skerðingar. Markmið þeirra er að veita ungmennunum betri tækifæri til að vera virkir þátttakendur í umræðu og stefnumótun sem varðar tækifæri þess, réttindi og mikilvæg hagsmunamál. Fulltrúar ráðsins þökkuðu góðar viðtökur og töluðu um mikilvægi þess að mæta ólíkum þörfum, „jafnrétti snýst ekki um að allir fái það sama heldur að um að mæta mismunandi þörfum til að allir geta notið sömu tækifæra,” sagði Sunna Dögg Ágústsdóttir, fulltrúi ráðsins, þegar aðild þeirra var samþykkt.

Ungmennaráð Þroskahjálpar ásamt Sigurði Helga, framkvæmdarstjóra LUF

Aðild beggja félaga eykur fjölbreytni innan sambandsins og er því mikill styrkur fyrir LUF þar sem ungmennaráðin búa yfir sérþekkingu í sínum málaflokkum. Ungmennaráðin munu styrkja LUF í að sinna hlutverki sínu sem málsvari  alls ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum.

Tinna kjörin ungmennafulltrúi

Tinna kjörin ungmennafulltrúi

Auk þess var gengið til kosninga á ungmennafulltrúa LUF á sviði sjálfbærar þróunar. Alls bárust fjögur framboð og var það Tinna Hallgrímsdóttir, fulltrúi UU sem hlaut kjör. Karen Björk Eyþórsdóttir, fulltrúi UAK, hlaut næst flest atkvæði og er því varafulltrúi. Tinna kemur til með að sækja ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2020), sem fram fer í New York 7. – 16. júlí 2020, í umboði ungs fólks á Íslandi. 

Fulltrúar fráfarandi og nýrrar stjórna vilja þakka öllum þeim sem mættu á þingið og sömuleiðis öllum aðildarfélögum LUF fyrir gott samstarf á liðnu kjörtímabili. LUF fagnar því að við bættust þrír efnilegir einstaklingar við í stjórn sem mun halda áfram að leiða starfið af krafti, sem tryggir samfellu í starfi og komandi verkefnum.