Una Hildardóttir formaður Landssambands ungmennafélaga flutti opnunarávarp í upphafi vinnufundar þingmannanefndar í málefnum barna þann 20. júní síðastliðinn. Fundurinn var haldinn í tengslum við þá umfangsmiklu vinnu við endurskoðun á allri þjónustu við börn og ungmenni. Hér að neðan má lesa ávarp Unu í heild:

Hæstvirtir ráðherrar, háttvirta þingmannanefnd, ágæti stýrihópur stjórnarráðsins og mikilvægu hagsmunaaðilar, 

Ég vil byrja á því að þakka fyrir boðið á þennan mikilvæga vinnufund. Það er mér heiður að fá að opna hann með ávarpi sem ég flyt fyrir hönd Landssambands ungmennafélaga eða LUF, sem er þverpólitískur samstarfs- og samráðsvettvangur lýðræðislegra og frjálsra ungmennafélaga sem starfa á landsvísu – þar sem ungt fólk fer með allt ákvarðanavald og starfar með hagsmuni ungs fólks að leiðarljósi.

LUF er málsvari ungs fólks gagnvart íslenskum stjórnvöldum og kemur fram fyrir hönd íslenskra ungmenna á alþjóðavettvangi. LUF hefur það að markmiði að vernda og efla réttindi ungs fólks, auk þess að valdefla ungt fólk í samfélaginu og ungmennastarf almennt, hvetja til virkrar samfélagsþátttöku ungs fólks og stuðla að umræðu og þekkingarsköpun um málaflokkinn.

Sem samstarfs- og samráðsvettvangur er Landssambandið hugsað sem brú á milli ungs fólks, ríkis, sveitarfélaga og annara landa. Framtíðarsýn félagsmanna er sú að LUF virki síðar líkt og systursamtök félagsins erlendis, þar sem stjórnvöld eiga lýðræðislegt samráð við fulltrúaráð félagsins áður en ákvarðanir eru teknar og að sérfræðihópar og nefndir ungs fólks fái sæti í stærri stýrihópum stjórnvalda.  

Það er því afar mikilvægt fyrir LUF að fá tækifæri til að taka þátt í þessari umfangsmikilli heildarendurskoðun á málefnum barna og ungmenna. Þá fagnar LUF því góða samstarfi sem er að eiga sér stað þvert á ráðuneyti í nánu samráði við hagsmunaaðila og notendur kerfisins. Jákvætt er að á þessu kjörtímabili hefur LUF fundið fyrir miklum meðbyr og auknum áhuga stjórnvalda á málaflokkum ungs fólks. 

Það er sérstakt fagnaðarefni þar sem LUF hefur lengi gagnrýnt stefnuleysi stjórnvalda og talað fyrir gerð heildstæðrar stefnu í málefnum ungs fólks, sem kölluð er á ensku „National Youth Policy“ – en slíka stefnu hafa flest ríki, sem við berum okkur saman við, sett sér. Hér eigum við að gera betur og er aukinn áhugi stjórnvalda mikilvægt skref í átt að gerð slíkrar stefnu.

Þá bindur LUF miklar vonir við að slík heildarendurskoðun leiði af sér eina, heildstæða stefnu sem ríki, sveitarfélög og frjáls félagasamtök finni fyrir sameiginlegu eignarhaldi yfir, líkt og orðið hefur á þessum vettvangi.

Þá hvetur LUF einnig til þess að Ísland mæti í framhaldi aukinni kröfu um „ungmennasamþættingu“ sem á ensku kallast „youth mainstreaming“, þar sem ætlast er til þess að sjónarhorni ungs fólks sé fléttað inn í stefnumótun í öllum málaflokkum og tekið tillit til þeirra á öllum sviðum samfélagsins.

Þá vill LUF mælast til þess að við slíka vinnu yrði notast við gæðastaðla Evrópska ungmennavettvangsins um stefnumótun í málefnum ungs fólks. Þá skal tryggt að stefna stjórnvalda í málefnum ungs fólks byggi á þarfagreiningu og rannsóknum á stöðu barna og ungmenna, að hún sé réttindamiðuð, þverfagleg og mælanleg hringrás endurmats, full fjármögnuð og að ungt fólk taki virkan og raunverulegan þátt á lýðræðislegum vettvangi.

En af hverju gleymast málefni ungs fólks? LUF hefur talað fyrir því að áður en farið verði af stað í að móta heildstæða stefnu í málefnum ungs fólks verði Æskulýðslög frá árinu 2007 fyrst endurskoðuð. Slík endurskoðun var lögð til í fyrsta markmiði stefnumótunar í æskulýðsmálum sem átti að gilda frá 2014-2018. Þessari vinnu hefði átt að vera lokið fyrir maílok 2017 samkvæmt tillögu stýrihóps í framkvæmd stefnumótunar í æskulýðsmálum. 

Síðan þá hefur LUF ítrekað gert það að tillögu til stjórnvalda að endurskoða lögin í heild, ásamt þeim skilgreiningum sem þar er að finna. Í núgildandi framkvæmdaáætlun LUF er það gert að sérstöku markmiði stjórnar að tala fyrir endurskoðun á lögunum á þessu starfsári – því núgildandi lög samrýmast LUF og aðildarfélögum þess illa. 

LUF lítur svo á að án endurskoðunar sé torvelt fyrir félagið og önnur félagasamtök ungs fólks að starfa í málaflokknum og ná markmiðum sínum. Lögin gera ekki ráð fyrir hagsmunastarfi og því mikilvæga ungmennastarfi sem felst í því að vernda og efla eigin réttindi. Þá er mikilvægt að gerður sé greinarmunur á þörfum 6 ára barna og 25 ára einstaklinga í lögunum. 

Ennfremur þarf að setja þá lágmarkskröfu að í Æskulýðsráði verði ungmenni í meirihluta, í ljósi þess að hlutverk ráðsins er að vera stjórnvöldum til ráðgjafar og að gera tillögur um áherslur og stefnumótun í málaflokknum.

Ekki er síðri réttur barna, ungmenna og ungs fólks til þess að skilgreina sig sjálft, hvort sem þau eru á því aldursskeiði sem nýtur lagalegrar verndar barnasáttmálans eða ekki. Mikilvægt er að hópurinn samsami sig með því sem við á og skilji það sem átt er við.

Áður en ráðist verður í að setja upp aðgerðaráætlun um endurskoðun á málefnum barna og ungmenna viljum við í stjórn LUF vekja athygli á þeim skilgreiningar- og hugtakavanda sem málaflokkurinn glímir við og kom berlega í ljós við síðustu stefnumótunarvinnu Æskulýðsráðs. Þá telur LUF að sameiginlegur skilningur á lykilhugtökum sé nauðsynlegur í vinnu sem þessari. 

Hér er vert að nefna að LUF hefur sent út könnun á aðildarfélög sín og þegar þau voru beðin um skilgreiningu á aldurshópnum 16-35 ára voru 85% sem sögðu „ungt fólk“ og 15% sögðu „ungmenni“. Enginn hakaði við „æskulýður“ og ekkert af því félagi sem svaraði skilgreinir sig sem „æskulýðsfélag“. Það þýðir ekki að tala um „æskulýðsstarf“ í lögum og stefnumótun ef hópurinn sem um ræðir leggur ekki sömu merkingu í hugtakið. 

Þegar rætt er um æskulýðsstarf eiga sumir við ungmennastarf í heild sinni á meðan aðrir eiga bara við tómstunda- og félagsmál barna og ungmenna. Í raun er málaflokkurinn „ungt fólk“ ekki til innan stjórnsýslunnar en með bættum lögum og heildstæðri stefnu er auðveldlega hægt að bæta úr því.

Farsæl endurskoðun á málaflokknum og mótun nýrrar stefnu Íslands í málefnum barna og ungmenna krefst samráðs og sérfræðiþekkingar þeirra hópa sem um ræðir. Forsenda þess að lýðræðislegt, faglegt og skipulagt samráð geti átt sér stoð í raunveruleikanum er að tryggja ungmennafélögum sæti við borðið þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku. Félagafrelsi ungs fólks þarf að vera tryggt sem og fjármagn og mannauður sem er meginforsenda samráðs ungmennafélaga.

Hér er sú jafningjafræðsla, sem ungmennafélög sinna, ekki síður mikilvæg þegar veita á ungu fólki nauðsynleg verkfæri og fræðslu til að þekkja, æfa, vernda og efla eigin réttindi.

En höfum þó í huga að samráð er ekki í öllum tilvikum raunverulegt. Ungt fólk er berskjaldaðasti hópur samfélagsins og sá líklegasti til þess að verða fyrir sýndarsamráði og oftast er gert ráð fyrir því að ungt fólk vinni frítt.

Samráð krefst sérfræðiþekkingar og gott samráð tekur tíma. Samkvæmt stefnu LUF eru ójöfn fjárframlög ríkisins til frjálsra félagasamtaka ungs fólks óviðunandi og er því eitt helsta áherslumál félagins að berjast fyrir fjárútlátum á jafningjagrundvelli. Hingað til hefur fjárúthlutunum til málaflokksins verið stjórnað af geðþóttaákvörðununum. 

LUF vill taka upp hlutlaust kerfi að norrænni fyrirmynd þar sem öll ungmennafélög, að uppfylltum ákveðnum kröfum, fái fjármagn í hlutfalli við félagafjölda og eiga kost á að byggja upp starf sitt á framsýnni hugsun. Þá væri einnig tekið tillit til jafnréttissjónarmiða og hlutfalls ungs fólks í stjórn. Slíkt fyrirkomulag eykur hvata til að gera betur og styrkir einnig stofnun og starfsemi nýrra félaga.

Forsenda þess að taka fullt tillit til þarfa og hagsmuna barna á öllum sviðum samfélagsins eru réttindi til virkrar þátttöku í félögum. Í ljósi þess telur LUF það mikið áhyggjuefni að Ríkisskattstjóri neitar ungmennum undir 18 ára aldri að sitja í stjórnum ungmennafélaga. 

Um er að ræða brot gegn mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi og jafnræði og gengur það einnig gegn ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna til tjáningar og þátttöku í samfélaginu.

Kæra samkoma. LUF fagnar þessari endurskoðun á málefnum barna og þeirri samþættingu sem mun eiga sér stað í framtíðinni. Núverandi ríkisstjórn setti málefni barna í forgang og hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra bætt rekstrarumhverfi félagasamtaka ungs fólks til muna og stuðlað að úrbótum á stuttum tíma og erum við afar þakklát fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt síðastliðin tvö ár. 

Aukin fjármögnun hefur skilað sér í öflugra starfi og tryggt rekstrargrundvöll fyrir mikilvæg verkefni ætluð ungu fólki. Eitt þeirra verkefna er Leiðtogaskóli Íslands en skólinn er sameiginlegur vettvangur aðildarfélaga LUF til að þjálfa persónulega hæfni, efla tengslanet, deila reynslu, auka getu og valdefla ungt fólk á Íslandi.

Að lokum vill LUF þakka Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra fyrir að sýna frumkvæði í að bæta samráð við ungt fólk og fyrir að taka þessi mikilvægu skref í átt að bættri þjónustu við börn, ungmenni, og fjölskyldur þeirra þvert á málaflokka. Breyting sem þessi mun, án nokkurs vafa, auka réttindi barna á Íslandi til muna.  Við í LUF hlökkum til að leggja okkar af mörkum og ég efast ég ekki um að vinnan við verkefnið verði áfram lausnamiðuð og farsæl.