Una Hildardóttir nýr formaður LUF

Síðastliðinn fimmtudag,  28. febrúar, fór fram sambandsþing Landssambands ungmennafélaga (LUF) í Háskóla Íslands þar sem fulltrúar þingsins kusu sér nýja stjórn. Una Hildardóttir, fulltrúi Ungra Vinstri grænna var kjörin formaður, en síðustu tvö ár hafði hún gegnt embætti ritara. Er hún því að hefja þriðja kjörtímabilið sitt í stjórn LUF. Þá var Geir Finnsson fulltrúi Uppreisnar – Ungliðahreyfingu Viðreisnar kjörinn varaformaður, Marinó Örn Ólafsson fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands var endurkjörinn gjaldkeri, Inger Erla Thomsen fulltrúi Ungra jafnaðarmanna kjörin ritari og Sara Þöll Finnbogadóttir fulltrúi Sambands íslenskra framhaldsskólanema var kjörin alþjóðafulltrúi félagsins. Kosnir voru tveir meðstjórnendur, þau Enar Kornelius Leferink fulltrúi Ungra umhverfissinna og Rut Einarsdóttir fulltrúi Ungmennahreyfingar Rauða kross Íslands. Að auki voru kosnir tveir varamenn, þau Laufey María Jóhannsdóttir fulltrúi Ungra athafnakvenna, fráfarandi varaformaður LUF og Sigurður Helgi Birgisson fulltrúi Sambands íslenskra námsmanna erlendis, fráfarandi formaður LUF.

Ungt fólk fær fulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum

Harpa Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi var sérstakur gestur í upphafi þingsins í tilefni af undirritun samstarfssamkomulags. En það felst í að koma á fót Ungmennafulltrúum Íslands á viðburðum Sameinuðu þjóðanna (e. UN Youth Delegation Programme). En Ísland er eitt fárra ríkja sem hefur enn ekki komið því á laggirnar. Stjórn einsetur sér að ná að fjármagna fulltrúa til að sækja allsherjarþingið til að byrja með. Síðar verður verkefnið þróað og stefnt að því að tryggja ungmennafulltrúa á sem flesta viðburði í framtíðinni. Ungmennafulltrúarnir verða lýðræðislega kosnir á fulltrúaráðsfundum LUF og munu þeir skipa „sendinefnd íslenskra ungmenna hjá Sameinuðu þjóðunum“. Nefndin mun virka sem einskonar ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta.


Hugrún – geðfræðslufélag undir regnhlíf LUF

Hugrún – geðfræðslufélag sótti um fulla aðild að LUF á starfstímabilinu og var umsóknin samþykkt með einróma lófataki allra þingfulltrúa, en 31 félag eiga aðild að landssambandinu. Tilgangur Hugrúnar er að sinna jafningjafræðslu um geðheilsu og geðraskanir fyrir ungmenni. Samræmist því tilgangur Hugrúnar vel við stefnu LUF um heilsu og vellíðan ungmenna. Aðild Hugrúnar að LUF eykur fjölbreytni innan sambandsins og er því mikill styrkur fyrir LUF þar sem Hugrún býr yfir sérfræðiþekkingu í málaflokknum. „Hugrún – Geðfræðslufélag fagnar því að vera orðið hluti af Landssambandi Ungmennafélaga. Meðlimir félagsins eru spenntir fyrir því að fá að starfa með og kynnast betur öðrum félögum sem brenna fyrir hagsmunum ungs fólks. Það er mikilvægt að hugað sé að geðheilsu, geðsjúkdómum og úrræðum í réttindabaráttu ungmenna og því frábært að Hugrún – Geðfræðslufélag hafi aðild að LUF.“ – sagði Kristín Hulda Gísladóttir formaður Hugrúnar.

Fulltrúar fráfarandi og nýrrar stjórna vilja þakka öllum þeim sem mættu á þingið og sömuleiðis öllum aðildarfélögum LUF fyrir gott samstarf á liðnu kjörtímabili. LUF fagnar því að við bættust fjórir efnilegir einstaklingar við í stjórn sem mun halda áfram að leiða starfið af krafti, sem tryggir samfellu í starfi og komandi verkefnum. Þá sérstaklega framkvæmd lýðræðisverkefnisins #ÉgKýs, þróun leiðtogaskólans og verkefnum sem tengjast frekari innleiðingu á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. „Ég lít björtum augum á verkefnin framundan og hlakka til að takast á við þau ásamt nýrri stjórn,“ sagði Una Hildardóttir nýkjörin formaður LUF að þingi loknu.