„Hlutverk ungmennaráðsins er að hvetja ungt fólk til þátttöku, hafa áhrif á sitt samfélag og berjast fyrir mannréttindum barna.“

Hluti af stjórn Ungheilla.
Á stjórnarfundi 18. ágúst 2020 samþykkti stjórn LUF umsókn Ungheilla – Ungmennráðs Barnaheilla um áheyrnaraðild að sambandinu.
Markmið Ungheilla er að vekja athygli á réttindum bara og og berjast fyrir réttindum þeirra jafnt á Íslandi sem erlendis. Þau horfa á heiminn frá sjónarhorni barna og ungmenna – og eru stolt af því. Ráðið vinnur að því að endurspegla sem flesta hópa samfélagsins og þeirra skoðanir og er fyrir fólk á aldrinum 13-25 ára. Hægt er að sækja um aðild með því að senda umsókn á ungmennarad@barnaheill.is .
Stuðla að fræðslu og valdeflingu
Stjórn LUF telur tilgang og markmið Ungheilla samræmast stefnu LUF um fræðslu og valdeflinu. Þar segir: „Samfélagsþátttaka er lærð hegðun og ungt fólk þarfnast valdeflingar til að þekkja, æfa og verja réttindi sín – til að hafa getu til að taka þátt og og njóta til fulls lýðræðislegrar borgaravitundar. LUF skal því vera leiðandi í mannréttinda- og lýðræðisfræðslu í gegnum sjálfboðastarf, námskeið, vinnustofur og annað óformlegt nám. LUF leggur áherslu á jafningjafræðslu og stuðlar að eflingu leiðtogahæfni ungs fólks.“
Aukin áhersla á réttindi barna

Klara Dröfn, formaður Ungheilla.
Aðild Ungheilla er styrkur fyrir LUF, einkum þegar kemur að mannréttindafræðslu á sviði barna og ungmenna. „Við fögnum því að Ungheill sé komið undir regnhlíf Landssambands ungmennafélaga sem tryggir aukna áherslu á réttindi barna. Ég tel að aðildin opni enn fleiri tækifæri fyrir ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref í félagsstörfum,“ segir Una Hildardóttir, forseti LUF.
Klara Dröfn Tómasdóttir, formaður Ungheilla tekur undir og segir samstarfið opna ný tækifæri. „Ungmennaráð Barnaheilla er þakklátt fyrir að fá það tækifæri að vinna að markmiðum ráðsins á stærri vettvangi. Við teljum að aðild ráðsins bjóði upp á mörg tækifæri fyrir ungmennaráðið og Landssamband Ungmennafélaga. Við í ungmennaráði Barnaheilla hlökkum til samstarfsins í vetur og teljum okkur heppin að vera hluti af þessum flottu aðildarfélögum,“ segir hún.
Með samþykki stjórnar öðlast Ungheilla áheyrnaraðild.
Stjórn LUF býður Ungheilla velkomna undir regnhlífina.