Á stjórnarfundi 22. júlí 2020 samþykkti stjórn LUF umsókn Unghuga Hugarafls um áheyrnaraðild að sambandinu. Unghugar vinna í þágu ungs fólks með persónulega reynslu af andlegum áskorunum.
Stefna Unghuga er að efla fyrirmyndir fyrir aðra í sjálfsvinnu, styðja félagsmenn í bataferli og vinna að valdeflingu ungs fólks með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Með því móti vinna Unghugar að markmiði sínu sem er að hafa jákvæð áhrif á íslenskt geðheilbrigðiskerfi.
Stuðla að heilsu og vellíðan
Stjórn LUF telur tilgang og markmið Unghuga samræmast stefnu LUF um heilsu og vellíðan. Þar segir: „LUF telur að bregðast þurfi við því að hátt hlutfall ungs fólks stríðir við geðsjúkdóma á við kvíða og depurð. Er það grafalvarlegt að um þriðjungur háskólanema glímir við andleg veikindi, sérstaklega kvíða- og þunglyndi. LUF kallar því eftir fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferðum sem stuðla að geðheilbrigði og vellíðan ungmenna. Einnig þarf að efla forvarnir og meðferðir vegna fíknivanda, m.a. misnotkunar fíkniefna og áfengis. Þá er LUF fylgjandi afglæpavæðingu fíkniefna. Samræma þarf heilbrigðiskerfið þannig að það nái utan um bæði líkamleg og andleg veikindi. Óháð búsetu og efnahag þarf að tryggja aðgengi ungs fólks að heilbrigðisþjónustu og viðeigandi meðferðarúrræðum á þann hátt að kerfið sé fyrirbyggjandi og verndi ungt fólk gegn langvarandi veikindum sem geta fylgt fólki alla ævi. Sömuleiðis þarf að vinna gegn einelti og félagslegri einangrun sem hefur skaðleg áhrif á líðan ungs fólks.“
„Raddir sem flestra fái að heyrast“
Aðild Unghuga að LUF eykur fjölbreytni innan sambandsins og er því mikill styrkur þar sem Unghugar búa yfir sérþekkingu í málaflokknum. „Við fögnum því að fá Unghuga í lið með okkur og höldum áfram að vinna að því að fá eins breiðan hóp félaga undir regnhlífina til þess að raddir sem flestra fái að heyrast,“ segir Una Hildardóttir, forseti LUF.
Árný Björnsdóttir, varaformaður Unghuga, tekur undir og segir félagsmenn spennta fyrir komandi samstarfi. „Við erum mjög spennt fyrir þessu tækifæri til að hafa áhrif á þessum vettvangi. Við brennum fyrir því að koma á framfæri samfélagsmiðaðri nálgun á forvarnir og viðbrögð við andlegum áskorunum sem byggir á innsýn fólksins með reynsluna á eigin skinni. Við teljum okkur hafa helling fram að færa til LUF og erum mjög spennt fyrir þeim tækifærum sem samtökin hafa upp á að bjóða fyrir okkar félaga,“ útskýrir Árný.
Með samþykki stjórnar öðlast Unghugar áheyrnaraðild.
Stjórn LUF býður Unghuga velkomna undir regnhlífina.