Efla fræðslu ungs fólks á sviði fjármála, fjárfestinga, sparnaðar og verðbréfamarkaði. 

Ungir fjárfestar undir regnhlíf LUF

Á stjórnarfundi 18. ágúst 2020 samþykkti stjórn LUF umsókn Ungra fjárfesta um aðild að sambandinu. Þeir hljóta hér með áherynraraðild, umsókn um fulla aðild fer fyrir sambandsþing LUF 2021.

Tilgangur Ungra fjárfesta er að skapa vettvang fyrir faglega umræðu og tengsl milli félagsmanna. Félagið vinnur að því að vekja áhuga ungs fólks á fjármálum, fjárfestingum, sparnaði og verðbréfamarkaði. Ungir fjárfestar vinna að markmiðum sínum með reglulegum umræðu- og fræðslufundum og hafa einnig fræðsluefni á heimasíðu sinni.

Félagið er ætlað ungu fólki á aldrinum 18-35 ára og hægt er að gerast félagsmaður með því að skrá sig á vefsíðu Ungra fjárfesta.

Stuðla að sjálfstæði ungs fólks

Stjórn LUF telur tilgang og markmið Ungra fjárfesta samræmast stefnu LUF um sjálfstæði ungs fólks. Sér í lagi með fræðslu á árangursríkum leiðum í fjármálum sem getur aukið hæfni ungs fólks til að móta fjárhagslega framtíð sína og efnahagslega velferð. Í stefnu LUF segir: „Engin algild og alþjóðleg skilgreining er til um ungt fólk, en stofnanir, ríki og fræðimenn sammælast að átt er við ferli frá forræði til sjálfræðis. Kynslóðirnar sem nú vaxa úr grasi ná fullu sjálfstæði seinna en fyrri kynslóðir sem veldur það því að fólk í dag á það til að festast í þessu millibilsástandi og það þarf að viðurkenna. Geta ungs fólks til að taka fulla ábyrgð á eigin lífi eftir 18 ára aldur, lýðræðisleg borgaravitund og aðgengi að félags- og efnahagslegum réttindum helst í hendur. Ef þörfum ungs fólks er ekki mætt er hætta á að trú ungs fólks á lýðræði bresti. LUF kallar á aðgerðir í heilbrigðis-, atvinnu-, mennta- og húsnæðismálum þar sem tekið er sérstakt tillit til ungs fólks og telur að brýn þörf sé á heildstæðri stefnu hins opinbera í málaflokknum.“ 

„Valdefla ungt fólk enn frekar“

Arnaldur Þór Guðmundsson, formaður Ungra fjárfesta.

Aðild Unga fjárfesta er styrkur fyrir LUF sem eflir fjölbreytni í starfinu. Þetta segir Una Hildardóttir, forseti LUF. „Við fögnum því að fá ung fjárfesta í lið með okkur sem mikilvæga viðbót í flóru ungmennafélaga undir regnhlíf LUF. Aðild þeirra styrkir landssambandið í baráttuhluverki sínu, sér í lagi með því að stuðla að bættu fjármálalæsi ungs fólks,“ segir hún.

Arnaldur Þór Guðmundsson, formaður Ungra fjárfesta, fagnar samstarfinu. „Ungir fjárfestar eru spenntir fyrir því að valdefla ungt fólk enn frekar með aðild að LUF. Með aukinni þekkingu á sparnaði og fjárfestingum getur ungt fólk náð betri tökum á sínu lífi og haft enn frekari áhrif á umhverfið,“ útskýrir hann.

Með samþykki stjórnar öðlast Ungir fjárfestar áheyrnaraðild.
Stjórn LUF býður Unga fjárfesta velkomna undir regnhlífina.