Jökull Ingi Þorvaldsson var kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviði barna og ungmenna á 2. leiðtogaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga (LUF), sem fram fór í Hinu húsinu fyrr í dag, 3. september. Magnea Gná Jóhannsdóttir, fulltrúi SUF, hlaut næst flest atkvæði og er því varafulltrúi.
„Ekkert er börnum óviðkomandi“
Jökull Ingi býr yfir reynslu af réttindabaráttu barna, sér í lagi í starfi sínu sem formaður ungmennaráðs UNICEF. Þar vakti hann m.a. athygli á stöðu fylgdarlausra barna og fátækt á átaksvæðum.. Hann sat einnig í ritstjórn Umbi – barnaskýrslu til barnaréttindanefndar SÞ þar sem fjallað er um ýmis málefni út frá sjónarhorni barna. Hann hefur auk þess komið að starfi meðmennta- og menningarmálaráðuneytinu og menntamálastofnun í tengslum við rafræn samrænd próf.
Í framboðsræðu sinni varpaði Jökull Ingi ljósi mikilvægi þess að fjalla um málefni barna og ungmenna út frá þeirra sjónarhorni. „Ekkert er börnum óviðkomandi, hvort sem það er netöryggi, samgöngur, fátækt, hinsegin málefni, lögreglan eða kynferðisofbeldi,“ sagði Jökull Hann nefndi dæmi um hvernig börn og ungmenni hafa sýnt vilja sinn til þátttöku í ákvörðunartöku í verki í loftslagsverkföllunum þar sem börn og ungmenni, allt frá grunnskólaaldri og upp úr, stóðu saman og kröfðust aðgerða.
„Málefni barna og ungmenna eru viðvarandi á öllum sviðum samfélagsins og rödd þeirra sem framtíð landsins er oft ekki virt eingöngu vegna aldurs þeirra. Þessi staða sem ungmennafulltrúi Íslands til SÞ væri mér rosalega dýrmætt og ef ég væri svo heppinn að fá það umboð lofa ég að sinna henni eftir minni bestu getu,“ sagði Jökull að lokum.

Jökull Ingi og Geir Finnsson, varaforseti LUF / Mynd: Ari Páll Karlsson
ECOSOC Youth Forum
Jökull kemur til með að sækja fund ungmennavettvangi efnahags- og félagsmálaráðs SÞ ( e. The Economic and Social Council (ECOSOC) Youth Forum), í umboði ungs fólks á Íslandi.
Skipun ungmennafulltrúans og þátttaka hans er samstarf Landssambands ungmennafélaga, félags SÞ á Íslandi og félagsmálaráðuneytisins.
Sendinefnd LUF
Kjör ungmennafulltrúa Íslands hjá SÞ á sviði barna og ungmenna skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við. Sendinefndin skipar nú fjóra fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar og á sviði barna og ungmenna.
Stjórn LUF óskar Jökli til hamingju með kjörið og hlakkar til að vinna með honum á næstu misserum.

Verðlaunaafhending á tímum Covid-19 / Mynd: Ari Páll Karlsson