Tinna Hallgrímsdóttir var kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þórunar á sambandsþingi Landssambands ungmennafélaga (LUF), sem fram fór í Hinu húsinu laugardaginn 29. febrúar sl.
Alls voru 4 fulltrúar aðildarfélaga LUF í framboði á fundinum. Tinna, fulltrúi Ungra umhverfissinna (UU), hlaut kjör með meirihluta atkvæða, en kosið var í tveimur umferðum. Karen Björk Eyþórsdóttir, fulltrúi UAK, hlaut næst flest atkvæði og er því varafulltrúi.

Karen Björk, varafulltrúi, og Tinna, ungmennafulltrúi Íslands.
„virkja og fræða ungt fólk“
Tinna er bæði með reynslu af réttindabaráttu sem tengist sjálfbærri þróun og fræðilegan bakgrunn. Hún er meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði þar sem hún er formaður nemendafélagsins. Auk þess er Tinna varaformaður Ungra umhverfissinna og var meðal fyrstu meðlima í Regeneration 2030, ungmennahreyfingu sem stuðlar að því að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, svo fátt eitt sé nefnt. Tinna sat í pallborðsumræðum um sjálfbærari lífsstíl ungs fólks á Loftslagsráðstefnu SÞ í Katowice.
Í framboðsræðu sinni varpaði Tinna ljósi mikilvægi þess að fræða ungt fólk um sjálfbæra þróun. „Ég tel að besti leiðtoginn
sé sá sem valdeflir aðra og hef ég haft það að leiðarljósi í mínu starfi og lagt mikla áherslu á að virkja og fræða ungt fólk. Ég yrði afar þakklát ef ég yrði fyrir valinu í þessa stöðu og get lofað því að nýta tækifærið sem allra best til koma á framfæri sjónarmiðum ungs fólks á Íslandi um sjálfbæra þróun”
Samningur við utanríkisráðuneytið
Tinna kemur til með að sækja ráðherrafund Sameinuðu þjóðanna (e. United Nations High-Level Political Forum (HLPF 2020), sem fram fer í New York 7. – 16. júlí 2020, í umboði ungs fólks á Íslandi. Landssambandið hefur lengi barist fyrir þátttöku ungs fólks í ákvarðanatöku og stefnumótun í takt við megináherslum Sameinuðu þjóðanna. Vinnan hefur borið árangur en í seinustu viku var undirritaður samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og LUF um verkefnið til næstur þriggja ára.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis – og þróunarsamvinnuráðherra, og Una Hildardóttir, forseti Landssambands Ungmennafélaga (LUF), undirrituðu samstarfssamning ráðuneytisins og LUF fyrir árin 2020 – 2022.
Skipun ungmennafulltrúans og þátttaka hans á ráðherrafundinum er samstarfsverkefni Landssambands ungmennafélaga, félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Forsætisráðuneytisins.
Á sambandþinginu var einnig kjörin ný stjórn LUF. Stjórnina skipa:
Una Hildardóttir (UVG) forseti, Geir Finnsson (Uppreisn) varaforseti, Ásdís Nína Magnúsdóttir (UU) gjaldkeri, Rut Einarsdóttir (SÍNE) ritari, Sara Þöll Finnbogadóttir (SÍF) alþjóðafulltrúi, Tanja Teresa Leifsdóttir (UAK) meðstjórnandi, Steinunn Ása Sigurðardóttir (URKÍ) meðstjórnandi, ásamt varamönnunum, Viktori Inga Lorange (UNF) og Hreiðari Má Árnasyni (Samfés).