Árlegur fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW65) hófst í gær, 15. mars og stendur yfir til 26. mars. Fundurinn fer nú fram í 65. skiptið undir yfirskriftinni: Þátttaka kvenna á opinberum vettvangi og við ákvarðanatöku (e. Women in public life: Equal participation in decision-making). Í ljósi aðstæðna vegna heimsfaraldurs COVID19 fer almenn dagskrá fram á fjarfundarformi. Ungmennafulltrúar Sameinuðu Þjóðanna á sviði kynjajafnréttis og á sviði mannréttinda, þær Eva Dröfn Hassell og Jóna Þórey Pétursdóttir, sátu fund íslensku sendinefndarinnar í gær þar sem Eva Dröfn hélt erindi. Ræðuna er hægt að lesa í heild sinni hér fyrir neðan;

“Komið þið sæl. Eva Dröfn heiti ég og er ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði kynjajafnréttis. Ég er ung kona með mikið að segja en ég ætla að reyna að hafa þetta stutt og hugvekjandi, og deila með ykkur sýn minni á þetta hlutverk og hugsunum mínum varðandi 65. fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem er fram undan. Mér líður eins og ég sé að velja úr réttum af spennandi matseðli þegar ég skoða hliðarviðburðina og það er mikill heiður að fá að vera með ykkur hér í dag og næstu tvær vikur.

Við hér á Íslandi getum verið stolt af því hve framarlega við erum í jafnréttismálum en það sem mig langar að beita mér fyrir í þessu hlutverki, og biðja ykkur öll að hafa í huga næstu tvær vikur, er hvort þessi staða jafnréttismála nái til „allra kvenna og stúlkna“?

Meðal og á milli kvenna ríkir mikill fjölbreytileiki. Það má ekki gleymast að það eru fleiri félagslegar breytur sem ýta enn frekar undir jaðarsetningu sumra kvenna, stúlkna og ákveðinna samfélagshópa. Þegar við tölum fyrir réttindum kvenna, þá er svo mikilvægt að hafa þetta í huga. „Konur og stúlkur“ eru ekki einsleitur hópur með einsleitan bakgrunn, möguleika, áhrif eða tækifæri.

Þrátt fyrir að kyn sé veigamikil breyta sem mótar upplifanir okkar, aðstæður og stöðu í samfélaginu, þá eru fleiri þættir samtvinnaðir við kyn sem vega jafnmikið við að móta upplifanir okkar sem manneskjur í heiminum í dag.

Þegar ég bjó og stundaði alþjóðlegt háskólanám í Amsterdam í þrjú ár fann ég þetta svo greinilega. Það skemmtilegasta sem ég upplifði af þessari reynslu var að stunda nám í lögfræði, og öðrum fögum á við réttlæti, kynjafræði og stjórnmálafræði, innan kennslustofu með manneskjum alls staðar að úr heiminum, með mismunandi bakgrunn, skoðanir og upplifanir. Þar var ég líka svo heppin að fá að upplifa á eigin skinni hvað kvennasamstaða þvert á landamæri, þjóðerni og menningu er mögnuð og kraftmikil, og það er það sem ég vonast til að finna líka fyrir á kvennanefndarfundinum næstu tvær vikur.

Í dag sem ungmennafulltrúi fæ ég að sækja hina ýmsu viðburði á vegum Sameinuðu þjóðanna í umboði ungra Íslendinga, leggja mig fram við að hlusta og læra og þegar tækifæri gefast að deila áfram reynslu minni og þekkingu, og tala fyrir því sem ég brenn fyrir. M.a. með þátttöku í hliðarviðburðum Íslands í næstu viku.

Auk þess skipa ég sæti áheyrnarfulltrúa í stýrihóp forsætis- og utanríkisráðuneytisins um verkefni UN Women, Generation Equality Forum þar sem Ísland er í leiðtogahlutverki aðgerðarbandalagsins gegn kynbundnu ofbeldi, sem er ótrúlega mikilvægt og spennandi verkefni.

Sem ungmennafulltrúi skipa ég líka sæti í sendinefnd LUF hjá Sameinuðu þjóðunum, ásamt fjórum öðrum ungmennafulltrúum, á sviði mannréttinda, loftlagsmála, sjálfbærar þróunar, og barna og ungmenna. Öll vinnum við gríðarlega mikilvæga vinnu, og virkar Sendinefndin sem starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ, og ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, og sendandi ráðuneyta.

Í þessu hlutverki er ég því bæði fulltrúi ungs fólks og talskona fyrir málefnum okkar sem samfélagshóp, en líka sjálfstæð rödd um þau málefni sem brenna á mér sem ung kona í dag.

Þar sem heimsmyndin okkar mótast að svo mörgu leyti af sjónarhorni okkar, upplifunum og bakgrunni, er svo ótrúlega mikilvægt að sjá til þess að sem fjölbreyttastur hópur fólks hafi rödd, að sem flestir komist að við borðið. Það eiga að vera svo sjálfsögð réttindi að það hver við erum hindri ekki þátttöku okkar í lífinu, í borgaralegu samfélagi og mótun þess samfélags sem við búum í. Mig langar að við á Íslandi sem höfum tækifæri til að koma jafnrétti lengra á veg, tökum þetta til okkar og sýnum gott fordæmi með fjölbreytileikann í fyrirrúmi.

Í þessu samhengi er hlutverk ungmennafulltrúa mikilvægt til að koma röddum ungs fólks á framfæri, á alþjóðavettvangi og hér heima. Við erum kynslóðin sem tekur við þessu öllu -Jörðinni, kerfunum og samfélagsgerðunum, en við erum líka virkir þátttakendur í borgaralegu samfélagi í dag, og það á að vera pláss fyrir okkur til að hafa eitthvað um þessi mál að segja – sem bókstaflega ráða því hvernig framtíðin okkar mun líta út.

Þema ársins í ár er gríðarlega nauðsynlegt og viðeigandi, til þess að vernda og styðja við aukin réttindi allra kvenna á mismunandi sviðum. Við þurfum að skoða hvaða þættir hindra þátttöku kvenna almennt, og hvaða þættir jaðarsetja sérstaklega suma hópa kvenna, á öllum sviðum þjóðlífsins, ákvarðanatöku og stjórnunarstöðum. Því kynjajafnrétti verður svo sannarlega ekki náð fyrr en allar konur, öll kyn, á öllum aldri, af öllum bakgrunnum og samfélagshópum, njóta jafnra réttinda, öryggis, og tækifæra.

Mig langar því að hvetja okkur öll til að tileinka okkur samtvinnun og heildræna nálgun sem leiðarljós okkar á 65. fundi kvennanefndar SÞ, og fúsleika til að fagna fjölbreytileikanum meðal og á milli okkar allra í þessari mikilvægu vinnu sem er fram undan.

Gangi okkur öllum vel.”

Hægt verður að fylgjast með fundunum  í beinu streymi, sjá dagskrá hér: https://www.unwomen.org/en/csw/csw65-2021/official-meetings. Dagskrá fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna býður að venju upp á fjölda hliðarviðburða sem allir fara fram á fjarfundarformi og eru aðgengilegir almenningi: https://bit.ly/3qOoo8m.