„Ungmennaráð UN Women fræðir og eflir ungmenni í málefnum kvenna og jafnréttis í fátækari löndum og stríðsátakasvæðum.“
Á stjórnarfundi 18. september 2020 samþykkti stjórn LUF umsókn Ungmennaráðs UN Women um áheyrnaraðild að sambandinu.
Markmið ráðsins er að vera málsvari kvenna í fátækari ríkjum heims með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti efnahags- og félagslegrar framþróunar. Ráðið vinnur að markmiðum sínum með ýmsum vitundarvakningar- og fjáröflunuarviðburðum í þágu UN Women á Íslandi. Ráðið gengur út frá þeirri stefnu að ungur fræðir ungan en helstu kynningar ráðsins fara fram í grunn- og framhaldsskólum.
Ungt fólk á aldrinum 16-30 ára getur tekið þátt í starfinu með því að skrá sig í gegnum youth@unwomen.is .
Stuðla að kynjajafnrétti
Stjórn LUF telur tilgang og markmið Ungmennaráðs UN Women samræmast stefnu LUF um kynjajafnrétti. Þar segir: „LUF byggir starfsemi sína á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiðum. LUF talar gegn kynbundnu launamisrétti og vinnur markvisst að því að uppræta kynbundið áreiti og ofbeldi. Bæði með viðbragðsáætlun í siðareglum félagsins (sem taka einnig til aðildarfélaganna) og með því að tala gegn hverskonar ofbeldi opinberlega. Fullu kynjajafnrétti hefur ekki verið náð og viðurkennir LUF að ávallt er hætta á bakslagi, sem ber að gæta sérstaklega. LUF telur þörf á skýringum á hvers vegna ungir karlar eru síðri til að kjósa og líklegri til að fremja sjálfsmorð. LUF er fylgjandi því að gera kyn- og margbreytileikafræði að skyldufagi í aðalnámskrá framhaldsskóla og telur að efla þurfi kynfræðslu í grunnskólum.“

Sigríður Þóra formaður ungmennaráðs UN Women.
Aðild ungmennaráðs UN Women er styrkur fyrir LUF, einkum þegar kemur að fræðslu á sviði kynjajafnréttis. „Við bjóðum ungmennaráð UN Women velkomið í lið öflugra aðildarfélaga undir regnhlíf LUF. Aðild þeirra tryggir aukna áherslu á mannréttindi kvenna sem er eitt helsta baráttumál heimsbyggðarinnar um þessar mundir,“ segir Una Hildardóttir, forseti LUF.
Sigríður Þóra Þórðardóttir, formaður ungmennaráðs UN Women er spennt fyrir samstarfinu. „Við erum full tilhlökkunar yfir þessu tækifæri! Það er dýrmæt að geta komið okkar sjónarmiðum á framfæri og sérstaklega með þessum hætti,“ útskýrir Sigríður.
Ísland í forystu gegn kynbundu ofbeldi
Stjórn LUF telur jafnframt að Ungmennaráð UN Women geti eflt ungt fólk til þátttöku í alþjóðlega átaki UN Women: Kynslóð jafnréttis (e. Generation Equality Forum.) Á dögunum tók LUF þátt í jafnréttisráðstefnu átaksins fyrir ungt fólk sem fór fram á vefnum. Ísland er meðal forysturíkja í aðgerðarbandalagi um kynbundið ofbeldi í átakinu Kynslóð jafnréttis . Um er að ræða stærsta verkefni UN Women frá upphafi og er jafnframt meðal áherslumála aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres.
Átakið er skilgreint í samræmi við heimsmarkmið SÞ en fimm árum eftir setningu þeirra hefur komið í ljós að markmiðið um kynjajafnrétti er það markmið sem aðildarríki SÞ eiga lengst í land með.
Með samþykki stjórnar öðlast ungmennaráð UN Women áheyrnaraðild.
Stjórn LUF býður ungmennaráð UN Women velkomna undir regnhlífina.
