Unnur kjörin ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda
Unnur Lárusdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE), var lýðræðislega kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ) á sviði mannréttinda á Sambandsþingi Landssambands ungmennafélaga (LUF). Þingið fór fram á Háskólatorgi laugardaginn, 25. janúar og voru 6 í framboði. Sólveig Ástudóttir Daðadóttir, fulltrúi Q-félags hinsegin stúdenta, hlaut næst flest atkvæði og mun hún því starfa sem varafulltrúi.

Unnur Lárusdóttir, nýjkörinn ungmennafulltrúi á sviði mannréttinda.
Unnur býr yfir reynslu af réttindabaráttu ungs fólks en hún hefur m.a. setið í stjórn UN Women á Íslandi. Þar tók hún þátt í því að efla þekkingu á mannréttindum og jafnrétti allra kynja með fjölmörgum kynningum til grunnskóla- og framhaldsskólanema um land allt. Að auki hefur hún sótt ráðstefnur á vegum European Youth Parliament þar sem mannréttindi eru gjarnan í forgrunni. Í námi hennar við Háskólann í Amsterdam, þar sem hún útskrifaðist með gráðu í þverfaglegri stjórnmálafræði, lagði hún mikla áherslu á jafnréttismál og mannréttindi og sérhæfði sig í málaflokknum en lokaritgerð hennar var á sviði alþjóðlegra laga um flóttafólk þar sem hún greindi stöðu kvenkyns hælisleitenda í Danmörku út frá alþjóðlegum mannréttinda- og jafnréttis sjónarmiðum. Að auki hefur Unnur starfað við rannsóknir á mannréttindum og réttindum barna hjá UNICEF og félagsmálaráðuneytinu þar sem hún kannaði innleiðingu á barnvænu hagsmunamati. Við gerð rannsóknarinnar kafaði hún djúpt í málaflokkinn, ásamt lögum og samþykktum af vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Ungmennafulltrúi á sviði mannréttinda
Unnur kemur m.a. til með að sækja 78. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í september í umboði ungs fólks á Íslandi.
Skipun ungmennafulltrúans og þátttaka hans er samstarf Landssambands ungmennafélaga, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og utanríkisráðuneytisins.
Sendinefnd og Alþjóðaráð LUF
Kjörinn ungmennafulltrúi Íslands hjá SÞ á sviði mannréttinda skipar sæti í sendinefnd LUF hjá SÞ. Nefndin er starfshópur LUF um málefni ungs fólks hjá SÞ. Hún starfar sem vinnuhópur, ráðgjafaráð, upplýsingaveita og brú á milli LUF, Félags SÞ á Íslandi og sendandi ráðuneyta. Fulltrúinn mun gegna embættinu þar til nýr tekur við. Þá sitja ungmennafulltrúar einnig í alþjóðaráði LUF sem er samráðsvettvangur aðildarfélaga er varðar alþjóðlegt starf.
Sendinefndin skipar nú sex fulltrúa; á sviði mannréttinda, loftslagsmála, sjálfbærar þróunar, barna og ungmenna, sviði kynjajafnréttis og á sviði mennta, vísinda og menningar.
Nýkjörin stjórn LUF óskar Unni til hamingju með kjörið og hlakkar til að vinna með henni fyrir framgangi mannréttinda og ungs fólks í heiminum á komandi misserum.