Landssamband ungmennafélaga (LUF) óskar eftir þátttakendum á ráðstefnu í Norræna húsinu í Reykjavík, föstudaginn 21. febrúar. Þema ráðstefnunnar er líffræðilegur fjölbreytileiki með áherslu á hafið. Í samstarfi við NORA, Norræna Atlantssamstarfið bjóðum við ungmennum, á aldrinum 16 – 35 ára, frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og strandlengju Noregs að koma saman og ræða sameiginlega hagsmuni.

Vinnustofan verður haldin fyrri hluta dags en að henni lokinni verður húsið opnað fyrir almenning. Þá tekur við vettvangur fyrir ungmennin, ráðamenn, sérfræðinga og aðra áhugasama að ræða málin í pallborðsumræðum.

LUF leitar að tíu þátttakendum frá Íslandi, bæði frá höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni. Ungmenni sem koma utan að landi fá allan ferðakostnað greiddan og auk þess verður boðið upp á veitingar á degi ráðstefnunnar.

Hvers vegna líffræðileg fjölbreytni?

Á árinu sem er rétt að ganga í garð, 2020, munu Sameinuðu þjóðirnar setja fram ný markmið um verndun og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa heimsins. Markmiðin munu tvímælalaust hafa mest áhrif á lífsviðurværi ungs fólksins og þeirra kynslóða sem á eftir koma. Þess vegna er mikilvægt að ungt fólk, um allan heim, fái tækifæri til að koma kröfum sínum á framfæri við stefnumótandi aðila í setningu markmiðanna.

Kröfur um framtíðarhagsmuni

Þátttakendur þurfa ekki að vera sérfróðir um viðfangsefnið. Á vinnustofunni verður stuðst við sérstaka verkfærakistu (e. toolkit) sem inniheldur fróðleik um líffræðilega fjölbreytni, um hvað sé í húfi og hvernig sé hægt að bregðast við. Verkfærakistan var þróuð af Norðurlandaráði ásamt Norrænu ráðherranefndinni í nánu samstarfi við ungt fólk til að koma röddum þeirra að í samningaferli sem nú á sér stað innan Sameinuðu þjóðanna um ný markmið fyrir líffræðilegan fjölbreytileika. Takmarkið er að skapa rými þar sem ungmenni geta mótað kröfur og hugmyndir sem þau geti komið á framfæri í setningu markmiða sem varða þeirra eigin framtíðarhagsmuni.

Fjölbreytt flóra þátttakenda

Sambærilegar vinnustofur munu fara fram víðs vegar á Norðurlöndunum og verður niðurstöðum þeirra safnað saman í norrænan gagnagrunn. Að lokum verður unnin skýrsla úr gögnunum sem verður lögð fyrir Norrænu ráðherranefndina og Norðurlandaráð í samningaviðræðum fyrir ný alþjóðleg markmið fyrir náttúru og fólk.

Óskað er eftir fjölbreyttri flóru þátttakenda og er eina skilyrðið að hafa opin hug og áhuga á umhverfismálum. Þetta er einstakt tækifæri fyrir unga aðgerðasinna í umhvefis- og loftslagsmálum að taka höndum saman og láta raddir sínar heyrast. 

Sæktu um fyrir 12. febrúar með því að smella HÉR.

Fyrir nánari upplýsingar, vinsamlegast hafið samband við Heiðu eða Elvu:

Heiða Vigdís: heida.vigdis@youth.is

Elva: elvahronn@vinstri.is

Verkfærakistan er opin öllum þeim sem vilja koma rödd ungu kynslóðarinnar að í setningu nýrra markmiða og vekja fólk til umhugsunar um framtíð líffræðilegrar fjölbreytni. Nánari upplýsingar um verkfærakistuna má nálgast hér.